Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/32971
Meginmarkmið þessarar rannsóknar var að kanna upplifun og reynslu starfsmanna og stjórnenda Íslandsbanka af verkefnamiðaðri vinnuaðstöðu. Einnig var tilgangurinn að kanna hvernig starfsmenn nýta vinnuaðstöðuna, hvernig hún hefur áhrif á samskipti og samvinnu þeirra, líðan og afköst. Á árunum 2016-2017 voru höfuðstöðvar bankans, sem áður voru hýstar á fjórum stöðum sameinaðar í eitt húsnæði. Samhliða því voru gerðar breytingar á vinnuaðstöðu starfsmanna og tekin upp verkefnamiðuð vinnuaðstaða. Í vinnuaðstöðunni eru mismunandi tegundir rýma sem hverju er ætlað að styðja við ákveðna tegund verkefnavinnu. Starfsmenn eiga ekki föst sæti heldur velja sér sæti í samræmi við þau verkefni sem þeir ætla að takast á við á hverjum tíma, hvort sem þau krefjast einbeitingar og næðis eða samskipta og samvinnu.
Rannsóknaraðferð eigindlegra rannsókna var beitt og flokkast rannsóknin sem tilviksrannsókn. Tekin voru tíu viðtöl við stjórnendur og starfsmenn Íslandsbanka. Stuðst var við viðtalsramma með það að markmiði að afla upplýsinga um upplifun og reynslu þeirra af vinnuaðstöðunni, hvernig þeir nota hana, áhrif hennar á líðan, afköst, samskipti og samvinnu.
Niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna að verkefnamiðuð vinnuaðstaða henti mjög vel þeim stjórnendum og starfsmönnum sem eru mikið á ferðinni í störfum sínum. Þeir eru jafnframt mjög ánægðir með fyrirkomulagið og nýta sér kosti mismunandi rýma í meira mæli en starfsmenn sem sitja mikið við. Vísbendingar eru um að starfsmenn sem sitja mikið á sama stað hafi staðið frammi fyrir fleiri áskorunum við að aðlagast vinnuaðstöðunni. Niðurstöðurnar gefa mynd af því hvernig verkefnamiðuð vinnuaðstaða getur haft áhrif á líðan og afköst starfsmanna og sýna að samskipti og samvinna starfsmanna í höfuðstöðvum Íslandsbanka hafi styrkst í nýrri vinnuaðstöðu.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Yfirlysing.pdf | 45,31 kB | Lokaður | Yfirlýsing | ||
Verkefnamiðuð vinnuaðstaða hjá Íslandsbanka.pdf | 983,67 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |