Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/33025
Ýmsar ógnir steðja nú að hefðbundnum viðskiptabönkum með aukinni tæknivæðingu og innleiðingu nýrra laga um greiðsluþjónustu. Sú aukna tæknivæðing sem er að eiga sér stað á fjármálamarkaði leiðir til aukinnar þróunar í ýmiskonar tæknilegri nýsköpun sem kallast fjártækni. Mikill meirihluti stjórnenda evrópskra fjármálafyrirtækja telur að fjártækni komi til með að umbreyta fjármálamarkaðnum þegar fram í sækir. Til að bregðast við þessari tækniþróun hefur Evrópuþingið samþykkt nýja tilskipun um greiðsluþjónustu sem talið er að muni hafa veruleg áhrif á hina hefðbundnu viðskiptabanka og jafnvel ógna stöðu þeirra á fjármálamarkaði. Nýja tilskipunin opnar bankakerfið fyrir nýjum aðilum og skyldar viðskiptabankana til að veita þessum aðilum aðgang að innlánsreikningum viðskiptavinar, að gefnu samþykki viðskiptavinarins. Þannig kemur samkeppni til með að aukast við innleiðingu nýju tilskipunarinnar og samkeppnisumhverfi fjármálamarkaðar verður margslungnara og flóknara. Vegna aukinnar samkeppni er hætta á að viðskiptabankar muni fjarlægjast viðskiptavini sína á meðan nýjir aðilar stýra viðskiptasambandi þeirra við viðskiptavini. Einnig er hætta á því að viðskiptabankar verði af töluverðum tekjum komi þeir ekki til með að endurhanna tekjumódel sín. Aukin samkeppni með tilkomu nýrra tilskipana ógnar stöðu viðskiptabanka á fjármálamarkaði og getur jafnvel leitt til þess að þeir hverfi alveg af markaði. Þó nokkrar íslenskar fjártæknilausnir hafa nú þegar verið kynntar, bæði í greiðslumiðlun og einstaklingslánum. Einnig hefur bandaríska tölvufyrirtækið Apple komið með greiðslulausn sína, Apple Pay, til landsins og munu fleiri erlend fyrirtæki og mögulega erlendir viðskiptabankar fylgja í kjölfarið. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til að ný lög um greiðsluþjónustu komi til með að hafa mikil áhrif á viðskiptabankana. Eins telur höfundur að nýju lögin komi til með að ógna þeim og þeirra stöðu á markaði. Íslensku viðskiptabankarnir hafa hinsvegar allt sem þarf til að mæta þessum ógnum og standa þessar breytingar af sér.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BSernadagnyLokaskil.pdf | 620.89 kB | Lokaður til...31.12.2039 | Heildartexti | ||
Yfirlýsing - Erna Dagný.pdf | 252.36 kB | Lokaður | Yfirlýsing |