Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/33077
Inngangur: Krabbamein á höfði og hálsi er samheiti yfir illkynja mein sem greinast í efri öndunar- og meltingarfærum. Fjöldi þeirra er að aukast um allan heim en þau eru 4,6% allra krabbameina. Markmið rannsóknarinnar var að meta nýgengi, endurkomutíðni og horfur krabbameina á höfði og hálsi á Íslandi á árunum 2009-2016 og skoða meðferðarákvarðanir með tilliti til staðsetningar þeirra.
Efniviður og aðferðir: Skoðaðir voru einstaklingar sem greindust með krabbamein á höfði og hálsi á Íslandi á árunum 2009-2016. Krabbameinsskrá útvegaði lista yfir kennitölur þessara einstaklinga og upplýsingar um greiningu, stigun, meðferð og endurkomu fengust úr sjúkraskrám þeirra. Upplýsingarnar voru skráðar á 4 mismunandi skráningarblöð byggð upp að fyrirmynd sænska INCA skráningarkerfisins og unnið var úr þeim við gerð rannsóknarinnar.
Niðurstöður: Árlegur meðalfjöldi tilfella krabbameina á höfði og hálsi á Íslandi á árunum 2009-2016 var um 30 talsins (8,48/100.000 einstaklinga). Flestar nýgreiningar voru árið 2016, 41 talsins (10,84/100.000 einstaklinga) og fæstar nýgreiningar voru árið 2010, 23 talsins (6,62/100.000 einstaklinga). Flestir greindust með krabbamein í munnholi (n=81, 33,9%), annað algengasta krabbameinið var í munnkoki (n=55, 23%) en fæstir greindust með krabbamein í barkakýliskoki (n=5, 2,1%). Algengasta vefjagreiningin var flöguþekjukrabbamein (n=210, 87,9%). Meðalaldur sjúklinga með krabbamein í munnkoki var 62 ár sem er lægri en meðalaldur greindra með krabbamein á öðrum stöðum (67 ár). Meðferð sjúklinga með krabbamein í munnholi eða vör var oftast aðgerð, ein og sér (54,9%) eða með geislameðferð (23,5%), meirihluti sjúklinga með krabbamein í barkakýli fór hins vegar ekki í aðgerð (68%). Geislameðferð var veitt hjá 98,2% munnkokskrabbameina, 80% barkakýliskrabbameina, 39,2% munnhols- og varakrabbameina og 78,1% krabbameina á öðrum stöðum. Fleiri karlmenn fengu geislameðferð (73,6%) og geislameðferð samhliða lyfjameðferð (20,6%) en konur (49,3% og 2,9%). Sjúkdómsendurkoma varð í 36% barkakýliskrabbameina, 48% munnhols- eða varakrabbameina, 21,8% munnkokskrabbameina og 25% krabbameina á öðrum stöðum. Tíðni munnkokskrabbameina er að aukast en mun betri tveggja ára lifun er fyrir p16 jákvæð munnkokskrabbamein (87%) en p16 neikvæð munnkokskrabbamein (64%).
Ályktanir: Fjöldi krabbameina á höfði og hálsi á Íslandi hefur aukist þrátt fyrir lækkandi tíðni reykinga. Mesta aukningin sést í krabbameinum staðsettum í munnkoki, úr þremur tilfellum árið 2009 í 15 tilfelli árið 2016 sem tengist sennilega aukinni tíðni HPV tengdra krabbameina. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu mikinn mun í meðferð krabbameina á höfði og hálsi milli kynja. Konur fengu sjaldnar geisla- og lyfjameðferð en karlar. Hærri tíðni munnhols- eða varakrabbameina hjá konum gæti skýrt þennan mun að hluta til.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BS ritgerðin mín 1.pdf | 2.95 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
yfirlýsing.pdf | 298.26 kB | Lokaður | Yfirlýsing |