is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/33081

Titill: 
 • Notkun ósæðardælu við kransæðahjáveituaðgerðir
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Inngangur: Ósæðardæla (e. intra-aortic balloon pump) er stundum notuð við hjartabilun í tengslum við kransæðahjáveituaðgerð, en hún eykur blóðflæði um kransæðar í þanbili (e. diastole) ásamt því að auðvelda hjartanu að tæma sig. Umdeilt er hvort ósæðardæla bæti horfur sjúklinga eftir opnar hjartaaðgerðir. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna hvernig sjúklingum sem fengu ósæðardælu í tengslum við kransæðahjáveitu hefur vegnað, ásamt ábendingum fyrir ísetningu og fjölda þeirra.
  Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og náði til 2177 sjúklinga sem gengust undir kransæðahjáveituaðgerð á Landspítala á tímabilinu 2001-2018, og voru 99 (4,5%) þeirra sem fengu ósæðardælu bornir saman við 2078 sjúklinga í viðmiðunarhópi. Upplýsingar um sjúklinga fengust úr sjúkraskrám og voru skráðir minniháttar og alvarlegir fylgikvillar ásamt 30 daga dánartíðni. Sérstaklega var leitað að eftirfarandi langtíma fylgikvillum: hjartaáfall, heilablóðfall, þörf á endurhjáveituaðgerð, kransæðavíkkun með eða án stoðnets og dauða (e. major adverse cardiac and cerebrovascular event, MACCE). Langtímalifun og MACCE-frí lifun voru síðan áætlaðar með aðferð Kaplan-Meiers og sjálfstæðir forspárþættir lifunar fundnir með Cox aðhvarfsgreiningu. Miðgildi eftirfylgdar var 101,1 mánuðir (bil: 0,0 - 215,9) og miðaðist við 31. desember 2018.
  Niðurstöður: Alls fengu 4,5% sjúklinga ósæðardælu og var tíðnin hæst árið 2006 (8,9%) en lægst 2001 (1,7%). Flestir fengu ósæðardælu fyrir aðgerð (58,6%) eða í aðgerð (34,3%), en aðeins 6,1% eftir aðgerð. Heildartíðni fylgikvilla var 14,1% og voru blæðing frá ísetningarstað, rof á dælublöðru, blóðþurrð í neðri útlimum og blóðflögufæð þeirra algengastir. Hlutfall kvenna var hærra í ósæðardæluhópi (30,3% sbr. 17,2%, p=0,001) sem oftar höfðu áhættuþætti kransæðasjúkdóms og lengri aðgerðar- og tangartíma. Auk þess var EuroSCORE II ósæðardælusjúklinga hærra (8,1 sbr. 2,2, p<0,001), líkt og tíðni minniháttar og alvarlegra fylgikvilla og 30 daga dánartíðni (22,2% sbr. 1,3%, p<0,001). Heildarlifun fimm árum frá aðgerð reyndist marktækt síðri hjá sjúklingum í ósæðardæluhópi (56,4% sbr. 91,5%) sem og 5-ára MACCE-frí lifun (46,9% sbr. 83,0%). Eftir að leiðrétt var fyrir öðrum áhættuþáttum í fjölbreytugreiningu reyndist notkun ósæðardælu reyndist vera sjálfstæður áhættuþáttur fyrir dauða (HH=2,53; 95% ÖB: 1,57 – 4,06; p<0,001).
  Ályktun: Innan við 5% sjúklinga fá ósæðardælu í tengslum við kransæðahjáveitu á Íslandi og hefur hlutfallið lítið breyst á sl. 18 árum. Helsta ábending fyrir notkun ósæðardælu var hjartabilun þar sem útfallsbrot var undir 30%. Eins og búast mátti við var tíðni fylgikvilla og 30 daga dánartíðni hærri hjá sjúklingum sem fengu ósæðardælu og bæði langtíma og MACCE-frí lifun þeirra síðri.

Samþykkt: 
 • 17.5.2019
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/33081


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
sunnaluxigunnarsdottir_ritgerd.pdf5.1 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Lokaverkefni - Yfirlýsing.pdf162.88 kBLokaðurYfirlýsingPDF