Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/33086
Ritgerðin fjallar um upphafsár myndunar íslensks þjóðríkis og verða þeir atburðir settir í samhengi við endalok hins danska einveldis um miðja nítjándu öld. Einnig er fjallað um það hvernig ný ríki byggð á þjóðarhugtaki og tungumáli mynduðust í stað fjölþjóðlegs konungsríkis í kjölfar þess að þýskumælandi hluti danska konungsdæmisins féll undir yfirráðasvæði Prússa og sameinaðist nýju þýsku þjóðríki árið 1871. Eftir stóð danskt þjóðríki, byggt á danskri tungu. Þjóðríkismyndun Dana eftir ósigurinn í Slésvík árið 1864 þýddi það að danska stjórnkerfið fór þegar að leita leiða til þess að skilja Ísland frá danska ríkinu.
Í þessu ljósi verður fjallað um tilraunir Hilmars Finsen, síðasta stiftamtmanns Dana á Íslandi, til að koma á varanlegum breytingum á íslensku stjórnkerfi sem myndu leiða til þess að landið yrði óháð fjárframlögum frá Danmörku. Raktar verða ástæður þess að áhugi var innan dansks stjórnkerfis fyrir því að skapa á Íslandi sjálfstætt stjórnkerfi óháð miðstjórnarvaldinu í Kaupmannahöfn um skilgeind innri málefni. Ein þeirra hafi verið minnkandi trú danskra stjórnvalda á því að hægt væri að fella Ísland inn í danska ríkisheild. Önnur var einlægur áhugi Dana fyrir þörfum Íslands, sprottinn af virðingu fyrir Íslandi vegna menningarlegs mikilvægis landsins fyrir sjálfsmynd nýskapaðs dansks þjóðríkis. En einnig voru fulltrúar í danska stjórnkerfinu orðnir þreyttir á samskiptum við forsvarsmenn Íslendinga og töldu það orðið mikilvægt að losna undan fjárhagslegum kvöðum sem Ísland lagði á danskan ríkissjóð.
En hvaða ástæður sem lágu að baki þá þurfti einstakling með skilning og þor til verksins, sem var fær um að nýta sér tímabundnar aðstæður til varanlegra breytinga á stjórnkerfi Íslands. Hilmar Finsen virðist hafa trúað því einlægt að framfarir á Íslandi og frelsi byggði á því að gera landið hluta af sterku ríkiskerfi sem var af ýmsum ástæðum einstaklega veikt á Íslandi. Þeim breytingum skyldi ná fram með uppbyggingu stofnana í Reykjavík í kjölfarið á því að innleiðing nýs stjórnlagafrumvarps danskra stjórnvalda og ríkisþings næði gildi. Aðdragandi þessa mikilvægu atburða og áhrifavaldar verða kallaðar fram á sviðið og að lokum verður tilgáta ritgerðarinnar metin.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Ritgerð til BA.pdf | 758.89 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
yfirlýsing.jpeg | 229.21 kB | Lokaður | Yfirlýsing | JPG |