is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/33087

Titill: 
 • Er hægt að spá fyrir um dvalarlengd á gjörgæsludeild eftir kransæðahjáveituaðgerð?
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Inngangur: Eftir kransæðahjáveituaðgerð eru sjúklingar færðir á gjörgæsludeild þar sem flestir dveljast í sólarhring. Sumir þurfa þó lengri gjörgæsludvöl af ýmsum ástæðum. Fjöldi gjörgæslurúma á Íslandi er takmarkaður og jafnframt gerir skortur á hjúkrunarfræðingum það að verkum að ekki er hægt að nýta til fulls þau rúm sem eru í boði. Plássleysi á gjörgæsludeild er algengasta ástæða þess að stærri skurðaðgerðum er frestað á Landspítala, en í fyrra var rúmlega þriðjungi allra hjartaaðgerða frestað af þeim sökum. Frestun aðgerða er kostnaðarsöm og veldur sjúklingum vanlíðan. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna algengi og áhættuþætti þess að sjúklingar dveljist lengur á gjörgæsludeild en sólarhring í kjölfar kransæðahjáveitu, með það að markmiði að auðvelda skipulag á starfsemi bæði gjörgæslu og legudeildar.
  Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og náði til allra sjúklinga sem gengust undir kransæðahjáveituaðgerð á Landspítala á árunum 2001-2018. Skráðar voru upplýsingar um fjölda legudaga, bæði á gjörgæslu og legudeild. Einnig var fyrra heilsufar skráð, þ.á.m. áhættuþættir kransæðasjúkdóms, aldur, kyn og líkamsþyngdarstuðull, auk upplýsinga um aðgerðina sjálfa og snemmkomna fylgikvilla eftir hana. Sjúklingar sem lágu inni á gjörgæslu í sólarhring eða skemur voru bornir saman við þá sem lágu þar lengur. Lifun var áætluð með aðferð Kaplan-Meiers og forspárþættir dvalarlengdar á gjörgæslu fundnir með lógistískri aðhvarfsgreiningu. Útbúinn var áhættureiknir út frá niðurstöðum fjölþátta lógistískrar aðhvarfsgreiningar, sem áætlar líkur á lengri gjörgæsludvöl en sólarhring eftir kransæðahjáveituaðgerð.
  Niðurstöður: Af 2177 sjúklingum þurftu 19,8% lengri gjörgæsludvöl en sólarhring og var miðgildi legutíma þessara sjúklinga á gjörgæslu 3 sólarhringar (meðaltal 5,7, bil: 2-42). Sjúklingar sem lágu lengur en sólarhring á gjörgæslu voru liðlega 2 árum eldri, voru oftar konur (23% sbr. 16%, p=0,001) og höfðu oftar áhættuþætti kransæðasjúkdóms og sögu um hjartasjúkdóma, m.a. nýlegt hjartaáfall. Auk þess var EuroSCORE II gildi þeirra hærra (4,7 sbr. 1,9, p<0,001), oftar saga um nýrnabilun og krónískan lungnasjúkdóm og þeir tóku oftar segavarnarlyf eins og klópídógrel, aspirín og heparín fyrir aðgerð. Tíðni bæði snemmkominna og langtímafylgikvilla var aukin, þ.á.m. enduraðgerða vegna blæðingar. Loks var langtímalifun þeirra var marktækt síðri en sjúklinga í viðmiðunarhópi (78% sbr. 93% fimm árum frá aðgerð, p<0,001). Áhættureiknir sem áætlar líkur á lengri gjörgæsludvöl en sólarhring má finna á slóðinni: https://notendur.hi.is/mingi/calculator.html.
  Ályktanir: Tæplega fimmti hver sjúklingur þarf lengri gjörgæsludvöl en sólarhring eftir kransæðahjáveitu á Landspítala. Ýmsir áhættuþættir spá fyrir um lengri gjörgæsludvöl eftir kransæðahjáveitu, sérstaklega hár aldur og EuroSCORE II. Í bígerð er að rannsaka hversu vel áhættureiknir sem byggist á niðurstöðum þessarar rannsóknar nýtist við skipulagningu kransæðahjáveituaðgerða á Íslandi.

Samþykkt: 
 • 17.5.2019
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/33087


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Yfirlysing.pdf182.18 kBLokaðurYfirlýsingPDF
ErlaLiuTingGunnarsdottir_BSritgerd.pdf2.55 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna