is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/33088

Titill: 
 • Árangur skurðaðgerða við nýrnakrabbameini á Landspítala á árunum 2010-2017
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Inngangur: Undanfarin ár hafa orðið töluverðar breytingar á meðferð nýrnaæxla. Algengara er orðið að æxli greinist fyrir tilviljun og eru þá að jafnaði minni við greiningu en áður. Samfara þessu hefur færst í vöxt að gert sé hlutabrottnám á nýra í stað þess að fjarlægja allt nýrað. Sömuleiðis hefur kviðsjáraðgerðum fjölgað á kostnað opinna aðgerða og með tilkomu aðgerðarþjarka er einnig farið að gera hlutabrottnám í kviðsjá, en áður voru slíkar aðgerðir eingöngu gerðar í opinni skurðaðgerð. Helsta markmið rannsóknarinnar er að skoða meðalstærð æxla, ástæðu greiningar, veitta meðferð og árangur meðferðar. Einnig verða skoðuð atriði eins og fylgikvillar, lengd sjúkrahúsdvalar, breytingar á nýrnastarfsemi, niðurstöður vefjarannsóknar og endurkomu sjúkdóms.
  Efni og aðferðir: Rannsóknin tók til allra sjúklinga sem gengust undir aðgerð á Landspítala vegna nýrnakrabbameina frá byrjun árs 2010 til lok árs 2017. Upplýsingar fengust úr sjúkraskráarkerfum LSH, fylgikvillar voru flokkaðir samkvæmt Clavien-Dindo flokkunarkerfinu. Æxlin voru stiguð skv. TNM-kerfi og jafnframt voru nýrnafrumukrabbameinin af tærfrumu-undirgerð áhættuflokkuð eftir Leibovich score.
  Niðurstöður: Alls gengust 308 sjúklingar (meðalaldur 63 ár, 61% voru karlar) undir nýrnabrottnám eða hlutabrottnám vegna nýrnakrabbameins á rannsóknartímabilinu. 182 (59%) voru greindir fyrir tilviljun en 126 vegna einkenna, sem voru í flestum tilvikum kviðverkir (22%) og/eða blóðmiga (22%). Á rannsóknartímabilinu fóru 127 (41%) í opið nýrnabrottnám, 84 (27%) fóru í nýrnabrottnám í kviðsjá, 82 (27%) í opið hlutabrottnám og 15 (5%) í hlutabrottnám í kviðsjá. Miðgildi aðgerðatíma var 126 mínútur og miðgildi blóðtaps í aðgerðunum var 300 ml. Miðgildi legutíma eftir aðgerð voru 5 nætur (bil 1-27 nætur). Enginn sjúklingur lést innan 30 daga frá aðgerð, það varð eitt dauðsfall (0.3%) innan 90 daga eftir aðgerð en það var ekki vegna fylgikvilla. TNM stigun eftir aðgerð sýndi að 81 (26%) voru með æxli sem vaxið var út fyrir nýrað (T3a eða hærra). 258 sjúklingar voru með tærfrumu undirgerð nýrnafrumukrabbameins og skiptust þeir í 3 áhættuhópa samkvæmt Leibovich flokkun, 130 (51%) í lágáhættu, 60 (23%) í mið-áhættu og 68 (26%) í há- hættu hóp. Alls voru 157 fylgikvillar skráðir hjá 115 (38%) sjúklingum, 29 (9%) fengu alvarlega fylgikvilla (Clavien Dindo: 3-5). Algengustu tegundir fylgikvilla voru áverkar í aðgerð (19%) og sýkingar (15%). Sterkustu forspárþættir fyrir aðgerð fyrir fylgikvillum voru háþrýsting, sykursýki eða hjartabilun (p<0.05). Miðgildi eftirfylgdartímans voru 38 mánuðir (millifjórðungsbil: 15,5-64,9 mánuðir). Endurkoma krabbameins á eftirfylgdartímanum kom fram hjá 48 sjúklingum (16%). Hlutfallsleg lifun eftir aðgerð var 94% eins árs lifun, og 74% fimm ára lifun. Helsti forspár þáttur fyrir langtímalifun eftir aðgerð var hvort sjúklingur hafði stig IV sjúkdóm eða ekki.
  Ályktanir: Rannsóknin sýnir okkur að meira en helmingur krabbameina í nýrum greinist fyrir tilviljun og eru því minni við greiningu en áður, en þá opnast valmöguleikinn á hlutabrottnámi. Út frá þessari rannsókn má álykta að nýrnabrottnám/hlutabrottnám í kviðsjá sé betri valkostur miðað við opna aðgerð þegar við á, með styttri legutíma, minni blæðingu og lægra hlutfall fylgikvilla. Einnig sýnir hún okkur að þetta eru frekar áhættulitlar aðgerðir þar sem lítið er um fylgikvilla en innan við 10% fengu alvarlega fylgikvilla.

Samþykkt: 
 • 17.5.2019
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/33088


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Johann_Thor_Johannesson_BSc_ritgerd.pdf1.16 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Johann_Thor_Johannesson_Yfirlysing.pdf290.6 kBLokaðurYfirlýsingPDF