is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/33090

Titill: 
 • Ris og hnig nýgengis sortuæxla á Íslandi
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Inngangur: Nýgengi sortuæxla hefur aukist mikið á mörgum svæðum í heiminum undanfarna áratugi. Helsta umhverfisorsök húðkrabbameina er útfjólublá geislun. Á Íslandi eru sortuæxli um 3% allra krabbameina og nýgengið er talsvert hærra hjá konum en körlum. Algengasta vefjagerð meinanna er superficial spreading melanoma (SSM). Sá þáttur sem hefur hvað mest að segja um horfur sjúklinga er Breslow‘s þykkt æxlisins. Nýgengið jókst mikið hérlendis upp úr 1990 og árið 2005 hafði það nær fimmfaldast en féll svo aftur um nærri helming undanfarinn áratug. Dánartíðnin er lág og hefur lítið breyst í gegnum árin. Markmið rannsóknarinnar var að rannsaka breytingar í birtingarmynd æxlanna og þá þætti sem hugsanlega liggja að baki þessu risi og hnigi í nýgengi sortuæxla á Íslandi.
  Efni og aðferðir: Rannsóknin er afturskyggn faraldsfræðirannsókn og úrvinnsla byggði á lýsandi tölfræði. Rannsóknarþýðið samanstóð af öllum þeim sem greindust með ífarandi sortuæxli í húð á Íslandi árin 1980-2018 (n=1285) en áhersla var lögð á tilfelli frá árunum 2010-2018. Frá Krabbameinsskrá Íslands fengust upplýsingar um kyn, aldur, búsetu, greiningarár, Breslow‘s þykkt, vefjagerð og staðsetningu æxlis. Þykkt æxla frá árunum 2017-2018 var fundin í meinafræðisvörum.
  Niðurstöður: Á tímabilinu 1980-2018 greindust 507 karlar (39%) og 778 konur (61%) með sortuæxli. Aldursstaðlað nýgengi yfir tímabilið 2010-2018 var 7,6/100.000 hjá körlum og 11,3/100.000 hjá konum. Meðalaldur við greiningu var 62 ár hjá körlum og 54 ár hjá konum. Frá tímabilinu 1980-1989 til tímabilsins 2000-2009 varð marktæk hækkun í nýgengi þunnra meina hjá báðum kynjum og í meðalþykkum meinum hjá körlum. Á milli tímabilanna 2000-2009 og 2010-2018 varð marktæk lækkun í nýgengi þunnra meina hjá konum. Auk þess lækkaði greiningaraldur hjá konum á árunum 1990-2009 en hækkaði svo aftur eftir það. Nýgengi þunnra og meðalþykkra meina hjá körlum hefur einnig farið lækkandi en þykk mein hafa staðið í stað. Miðgildi Breslow‘s þykktar lækkaði úr 2,2 mm á árunum 1980-1989 í 0,9 mm á árunum 2000-2009 hjá körlum og frá 1,0 í 0,6 mm hjá konum á sama tímabili og hefur haldist stöðugt síðan. Nýgengi SSM vefjagerðar hefur hækkað mikið frá 1990 en ekki nýgengi annarra vefjagerða. Mein af SSM vefjagerð voru 76% tilfella á tímabilinu 2010-2018. Algengasta staðsetning æxlanna var búkur hjá körlum (47%) og neðri útlimir kvenna (40%). Nýgengisbreytingar voru mest áberandi á meðal kvenna á höfuðborgarsvæðinu. Húðsjúkdómalæknum fjölgaði mikið upp úr 1990 og árið 1991 hófst árvekniátak um blettaskoðun. Ljósabekkjanotkun fullorðinna hefur minnkað niður í þriðjung og notkun ungmenna hefur helmingast frá árinu 2004.
  Ályktanir: Helsta breytingin yfir tímabilið 1980-2018 var í nýgengi þunnra sortuæxla. Breytingin var mest áberandi meðal kvenna á höfuðborgarsvæðinu og í meinum af SSM vefjagerð. Hækkun varð í nýgengi upp úr 1990 samhliða aukningu í notkun ljósabekkja og auknum vinsældum sólarlandaferða auk fjölgunar húðsjúkdómalækna og lýtalækna, og enn fremur ítrekaðra árvekniátaka um blettaskoðun. Nýgengi féll aftur upp úr 2004 samhliða minnkun í ljósabekkjanotkun og aukinni vitundar almennings um skaðsemi útfljólublárrar geislunar.

Samþykkt: 
 • 17.5.2019
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/33090


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
EirAndradóttir_ritgerð.pdf1.14 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Skemman yfirlýsing.pdf451.67 kBLokaðurYfirlýsingPDF