Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/33091
Umfjöllunarefni ritgerðar er rannsókn á virkni nemenda í kennslustundum í íslenskum framhaldsskólum. Markmið rannsóknarinnar er þríþætt. Í fyrsta lagi að greina hvernig virkni nemenda birtist í kennslustundum. Í öðru lagi að skoða hvort virknistundirnar flokkist sem kennarastýrðar eða nemendamiðaðar kennslustundir. Í þriðja lagi að skoða athafnir og viðmót kennara í virknistundum. Unnið er úr 130 vettvangslýsingum á kennslustundum í níu framhaldsskólum. Þeim var safnað á á árunum 2013–2014 í rannsóknarverkefninu Starfshættir í framhaldsskólum. Hver kennslustund er flokkuð í virka kennslustund eða kennslustund sem nær ekki viðmiðum um virkni. Viðmiðið er að 75% af nemendunum taki þátt í því sem kennarinn ætlast til af þeim í 75% af tímanum. Kennslustundirnar, sem náðu þessum viðmiðum reyndust 83, og eru þær nefndar virknistundir. Virknin kemur fram með mismunandi athöfnum sem hér eru kallaðar virkniathafnir.
Virkniathafnirnar, sem fundust, eru að vinna verkefni, spyrja kennara spurninga, sýna athygli, hlusta og fylgjast með, ræða um viðfangsefni, hjálpast að við að leysa verkefni, svara spurningum frá kennara um efnið, biðja um aðstoð frá kennara, skrifa, sýna áhuga á ýmsa vegu, leita og nota efnivið og að lesa. Niðurstöður benda til þess að virkni nemenda sé fremur jöfn hvort heldur að stuðst er við kennarastýrðar eða nemendamiðaðar kennsluaðferðir, en í nemendamiðaðri kennslu reyni á fjölbreyttari virkni nemenda. Niðurstöður gefa til kynna að athafnir og viðmót kennara hafi jákvæð áhrif á virkni nemenda. Einkennin jákvætt viðmót, hlýlegt andrúmsloft, skýr fyrirmæli kennara og hvetjandi kennari komu fyrir í um 90% virknistunda. Þetta undirstrikar að kennarar þurfa að huga vel að framkomu sinni í garð nemenda og val á kennsluaðferðum til að virkja nemendur í námi.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Virkni nemenda í kennslustundum.pdf | 879.81 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Skemman yfirlýsing .jpg | 1.01 MB | Lokaður | Yfirlýsing | JPG |