is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/33096

Titill: 
  • MS sjúkdómur og meðganga
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Inngangur: Heila- og mænusigg (e. Multiple Sclerosis) er taugasjúkdómur af sjálfsónæmistoga sem einkennist af íferð bólgufrumna í miðtaugakerfi, eyðingu mýelínslíðurs og fækkun taugasíma. Sjúkdómurinn kemur fram í köstum taugaeinkenna sem vara í nokkra daga eða vikur og ganga yfirleitt að fullu eða að hluta til baka. MS er sá taugasjúkdómur sem oftast veldur fötlun í ungu fólki. Sjúkdómurinn er algengari í konum en körlum og kemur oftast fram á aldrinum 20-40 ára. Því eru konur á barneignaraldri stór hluti sjúklingahópsins sem mikilvægt er að rannsaka sérstaklega. Erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á fækkun MS kasta móður meðan á meðgöngu stendur en aukningu á kastatíðni fyrstu mánuðina eftir fæðingu. Umdeilt er hvort brjóstagjöf verji konur fyrir köstum en vísbendingar eru þó um að svo sé. Ekki hefur verið framkvæmd rannsókn á áhrifum meðgöngu og brjóstagjafar á MS sjúkdóm á Íslandi. Með tilkomu nýrra lyfja sem hafa áhrif á sjúkdómsganginn er áhugavert að skoða áhrif meðgöngu og brjóstagjafar á MS sjúkdóm íslenskra kvenna á tímabilinu 1999-2018.
    Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og náði til allra kvenna sem höfðu greininguna MS (G35) í sjúkraskrárkerfi Landspítala á árunum 2009-2018 og höfðu fætt barn á tímabilinu 1999-2018 samkvæmt Fæðingarskrá Embættis landlæknis. Fæðingar þeirra kvenna sem ekki höfðu örugga MS greiningu eða fæddu barn fyrir greiningu MS sjúkdóms voru útilokaðar. Upplýsingum um kastatíðni, lyfjameðferð, segulómmyndir, EDSS skor, brjóstagjöf og staðsetningu mæðraverndar var safnað úr sjúkraskrám.
    Niðurstöður: Rannsóknarhópurinn samanstóð af 90 konum sem höfðu fætt 142 börn í 137 fæðingum. Köstum fækkaði marktækt á meðgöngu samanborið við árið fyrir þungun. Meðalkastatíðni árið fyrir meðgöngu var 0,438 köst á ári á hverja fæðingu en hún var 0,237 á meðgöngu. Ef meðgöngunni var skipt upp í trimester lækkaði kastatíðni marktækt á fyrsta og öðru trimestri; 0,158 köst á ári á hvert tilvik (63,9% lækkun) á fyrsta og 0,214 (51,2% lækkun) á öðru trimestri. Ómarktæk 20,6% lækkun var á þriðja trimestri meðgöngu og 33,3% ómarktæk hækkun var á kastatíðni eftir fæðingu. Algengustu taugaeinkenni í köstum á öllum tímabilum voru skyntruflanir og máttleysi í útlimum. Í 70 tilfellum (51,1%) var móðir á fyrirbyggjandi lyfjameðferð fyrir meðgöngu og í öllum þeirra hætti móðir á lyfjameðferðinni fyrir meðgöngu eða í upphafi hennar. Algengasta lyfjameðferð fyrir og eftir meðgöngu var interferon-β. Í 35 tilfellum (50,4%) hafði móðir farið í segulómun innan sex mánaða fyrir meðgöngu og eftir fæðingu, en 18 (51,4%) þeirra höfðu aukinn fjölda breytinga eftir fæðingu og þar af voru 10 (55,6%) með skuggaefnishlaðandi breytingar. Í 13 tilfellum (9,5%) var EDSS skor skráð bæði fyrir og eftir fæðingu (innan þriggja ára) en meðalgildi þess fyrir meðgöngu var 1,5 og breyttist ekki marktækt eftir fæðingu. Tímalengd brjóstagjafar var þekkt í 76 tilfellum (55,5%) og meðallengd hennar var 13,3 vikur. Í 46 tilvikum (33,6%) var móðir í áhættumæðravernd á Landspítala.
    Ályktanir: Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar hafa fyrstu tvö trimester meðgöngu kvenna með MS verndandi áhrif á kastatíðni. Allar konur í rannsókninni hættu á fyrirbyggjandi lyfjameðferð fyrir eða við þungun. Á segulómun, sem gerð var innan hálfs árs frá fæðingu þeirra kvenna sem höfðu verið á lyfjameðferð fyrir þungun, höfðu fleiri en 50% aukningu á segulskynsbreytingum og ríflega helmingur þeirra skuggaefnishlaðandi breytingar. Sjúkraskrárskráningu á einkennum og fötlunarstigi er ábótavant.

Samþykkt: 
  • 17.5.2019
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/33096


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
rebekkalisathorhallsdottir_ritgerd.pdf10.38 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Skemman.PNG159.1 kBLokaðurYfirlýsingPNG