is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/33097

Titill: 
 • Erfðir og algengi járnskortsblóðleysis á Íslandi
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Inngangur: Blóðleysi hrjáir um þriðjung heimsbyggðarinnar og er talið að járnskortur sé orsökin í um helmingi tilvika. Járnskortsblóðleysi er langvinnt og því fylgja gjarnan ósértæk einkenni en það leiðir til vangreiningar á sjúkdómnum. Aukin járnþörf er við vöxt ungra barna og unglinga og í tengslum við tíðablæðingar og meðgöngu kvenna. Þessir hópar eru því líklegri en aðrir til að þróa með sér járnskort. Til eru dæmi um arfgengt járnskortsblóðleysi en erfðir sjúkdómsins hafa þó lítið verið rannsakaðar. Markmið þessarar rannsóknar var að a) skoða algengi greinds járnskortsblóðleysis og föl- og smákornablóðleysis byggt á gagnagrunni Íslenskrar erfðagreiningar á blóðmælingum og að b) athuga hvort erfðabreytileikar tengdir járnsamvægi hefðu áhrif á tilurð járnskortsblóðleysis.
  Efniviður og aðferðir: Blóðmælingar og erfðaupplýsingar fengust úr gagnagrunni Íslenskrar erfðagreiningar. Skilgreindar voru tvær svipgerðir, járnskortsblóðleysi og föl- og smákornablóðleysi, og voru þær byggðar á alþjóðlegum viðmiðum. Við mat á algengi voru notaðar tölur frá Hagstofu Íslands yfir mannfjölda. Tilfella-viðmiða erfðarannsókn var framkvæmd, annars vegar á hópi einstaklinga sem höfðu greinst með járnskortsblóðleysi og hins vegar hópi einstaklinga sem höfðu greinst með föl- og smákornablóðleysi. Könnuð voru tengsl þessara sjúkdóma við 62 erfðabreytileika sem yfirstandandi rannsókn hjá Íslenskri erfðagreiningu hefur tengt við járnsamvægi.
  Niðurstöður: Af tæplega 4,4 milljónum mælinga voru 8.946 mælingar sem uppfylltu skilyrði járnskortsblóðleysis, 7.449 hjá konum og 1.497 hjá körlum. 90.047 mælingar uppfylltu skilyrði föl- og smákornablóðleysis, 57.332 hjá konum og 32.715 hjá körlum. Algengi greinds járnskortsblóðleysis jókst fyrir bæði kyn á tímabilinu 1995-2016. Aldursdreifing greininga sýndi að flestar konur greindust með járnskortsblóðleysi á aldrinum 15 til 47 ára. Jafnframt komu fram toppar um tveggja ára og 75 ára aldur sem einnig sáust hjá körlum en þar að auki kom fram toppur hjá körlum við 15 ára aldur. Í tilfellaviðmiðarannsókn á 62 erfðabreytileikum reyndust sex erfðabreytileikar hafa marktæk áhrif á tilurð járnskortsblóðleysis (DUOX2, F5, SLC11A2, HBS1L/MYB-milligenasvæði, TMPRSS6 og SLC25A37). Þessir erfðabreytileikar voru staðfestir í föl- og smákornablóðleysi en þar fundust sjö erfðabreytileikar til viðbótar sem höfðu marktæk áhrif. Einn af erfðabreytileikunum fylgdi víkjandi erfðamynstri (SLC11A2). Marktækur munur var á áhrifum milli kynja í einum erfðabreytileika fyrir járnskortsblóðleysi (F5) en tveimur fyrir föl- og smákornablóðleysi (DUOX2 og TMPRSS6).
  Ályktanir: Algengi greininga og aldursdreifing er í samræmi við það sem vitað er um járnskortsblóðleysi. Í tilfellaviðmiðarannsókn fundust sex nýir erfðabreytileikar sem höfðu marktæk áhrif á tilurð bæði járnskortsblóðleysis og föl- og smákornablóðleysis. Þessum erfðabreytileikum hefur ekki áður verið lýst í tengslum við járnskortsblóðleysi.

Samþykkt: 
 • 17.5.2019
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/33097


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
thelmakristinsdottir_yfirlysing.pdf385.38 kBLokaðurYfirlýsingPDF
thelmakristinsdottir_ritgerd.pdf2.3 MBLokaður til...17.05.2022HeildartextiPDF