is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/33099

Titill: 
 • Tengsl fæðingarþyngdar og 5 mínútna Apgars við þroska barns og félagslega líðan á unglingsárum
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Inngangur: Lág fæðingarþyngd er tengd burðarmálsdauða, vaxtarskerðingu, ungbarnasjúkdómum, vitsmunaskerðingu og langvinnum sjúkdómum síðar í lífi barna. Rannsóknir hafa sýnt fram á aukna hættu léttbura á skertum þroska, tilfinningavanda og fleiri vandamálum. Há fæðingarþyngd er tengd við aukna hættu á fylgikvillum fæðinga og lágum Apgar. Rannsóknir á of stórum börnum við fæðingu sýna að langtímaáhrif þess eru jákvæð á heilsu, þroska og menntun. Ástand barns við fæðingu er metið með samræmdu kerfi sem kallast Apgar. Rannsóknir hafa sýnt fram á að lágur Apgar við fæðingu hafi tengsl við ýmis vandamál eins og vitsmunaskerðingu, námsörðugleika og skertan tilfinningaþroska. Markmið þessa verkefnis voru að kanna tengsl fæðingarþyngdar og 5 mínútna Apgarstigunar fullburða barna við útkomu þroskaprófa við fimm ára aldur, félagslega líðan og streitueinkenni á unglingsárum.
  Efni og aðferðir: Gögnin eru hluti af gagnasafni Lifecourse rannsóknarinnar en þau fengust úr Fæðingarskrá Embættis landlæknis, frá Heilsugæslu og úr spurningakönnun um félagslega líðan. Þar eru upplýsingar um börn sem fæddust á Íslandi árið 2004 en þau voru 2227 sem tóku þátt. Einnig voru notaðar niðurstöður úr lífssýnum frá hluta hópsins þar sem mældur var styrkur kortisóls í munnvatni. Börnunum var skipt í 3 hópa eftir fæðingarþyngd: Lág fæðingarþyngd (<2500g), eðlileg fæðingarþyngd (2500-4500g) og há fæðingarþyngd (4500g). Þeim var einnig skipt í 2 hópa eftir 5 mínútna Apgar: Lágur Apgar (3-6) og eðlilegur Apgar (7-10). Aðhvarfsgreining með almennum línulegum og tvíkosta líkönum var notuð í niðurstöðum ásamt kí-kvaðrat prófi.
  Niðurstöður: Engin marktæk tengsl fengust í niðurstöðum um mun á hópum eftir fæðingarþyngd eða Apgar. Börn með eðlilegan Apgar virtust hlutfallslega oftar skora 10 á þroskaprófum (73,9%) en börn með lágan Apgar (60%) (p=0,527). Meðaleinkunn þroskaprófs hjá börnum með lágan Apgar var svipuð og hjá börnum með Apgar 7, 8, 9 og 10 en sambandið er ekki línulegt og ekki marktækt. Hvorki flokkaður Apgar né Apgar skoðaður út frá hverju stigi hafði tengsl við þroskapróf. Þessu var öfugt farið með fæðingarþyngd en meðaleinkunn þroskaprófa hjá léttburum var ómarktækt hærri (9,80) en hjá börnum með eðlilega fæðingarþyngd (9,60) og þungburum (9,56) en ekki voru marktæk tengsl. Lágur Apgar og lág fæðingarþyngd höfðu ekki marktæk tengsl við aukin þunglyndiseinkenni né aukin kvíðaeinkenni. Meðalstigafjöldi barna með lágan Apgar var hærri í spurningu um þunglyndi og félagskvíða en lægri í spurningu um líkamleg kvíðaeinkenni og samanlögð kvíðaeinkenni. Meðalstigafjöldi léttbura var hærri heldur en barna með eðlilega fæðingarþyngd í öllum spurningunum. Ekki reyndust heldur vera tengsl milli Apgars og streitueinkenna, CAR-gildis (cortisol awakening response), eða fæðingarþyngdar og CAR-gildis. Ekki var marktækur munur á CAR-gildi milli mismunandi Apgarstiga 7-10.
  Ályktanir: Ekki fundust marktæk tengsl milli lágs Apgars og lágrar fæðingarþyngdar við breytur um þroska barns, andlega líðan og streitumerki á unglingsárum. Mögulega er hægt að skýra þetta af góðri fæðingarhjálp og meðferð nýbura á Íslandi. Frekari rannsókna er þörf á stærri hópum. Þótt rannsóknin hafi náð yfir heilan árgang barna á Íslandi þá var þátttaka ekki nægileg og gögn ekki nógu fullkomin.

Samþykkt: 
 • 17.5.2019
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/33099


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
elvakristinvaldimarsdottir_BSritgerd.pdf1.07 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Yfirlysing.pdf262.63 kBLokaðurYfirlýsingPDF