Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/3310
Markmið þessarar rannsóknar var að afla gagna sem geta aukið skilning á hegðun
Búrfellsjökuls og Teigarjökuls, sem eru smáir framhlaupsjöklar á Tröllaskaga.
Rannsóknarvinnan var að mestu unnin árin 2007 – 2008 þegar gögnum var safnað um
landmótunarumhverfi, framhlaupasögu og hegðun jöklanna.
Megin drættir landmótunarumhverfis jöklanna eru settir fram í líkani fyrir
framhlaupsjökla á Tröllaskaga, byggt á gögnum frá þessum tveim jöklum. Jökulgarðar sem
myndaðir voru við framhlaup jöklanna eru flestir litlir og mynda einskonar þrep inn á
urðarbynk alsettann haugaruðningi. Landmótunarumhverfið er frekar fábreytt samanborið
við líkan Evans og Rea (2003) og er talið skýrast að hluta af fínefnasnauðu setumhverfi
jöklanna. Talið er víst að sum landform hafi ekki myndast við framhlaup jöklanna, t.d.
Stórurð við Búrfellsjökul, sem er túlkuð sem gamall grjótjökull afleiddur af jökli.
Öll ummerki framhlaupa eru frá seinni hluta Litlu Ísaldar og virðast jöklarnir hafa
hlaupið á um 30 – 60 ára fresti síðan þá. Ummerkjum eldri framhlaupa gæti hafa verið eytt
af framhlaupum á Litlu Ísöld, þegar jöklarnir náðu mestri útbreiðslu á nútíma.
Í framhlaupi Búrfellsjökuls árin 2001 – 2004 jókst flatarmál jökulsins um 16% við
um 50 – 250 m framgang jökuljaðars. Efra svæði jökulsins þynntist að meðaltali um 18 m
en neðra svæðið þykknaði um 16 m. Jökulhlaup í Búrfellsá markaði lok framhlaupsins árið
2004. Talið er að jökulhlaupið hafi orsakast af því að vatn hafi þrýstst undan jöklinum er
ísbylgja framhlaupsins náði jökulsporði.
Afkoma dal- og skálarjökla í fjallaumhverfi eins og Tröllaskaga stjórnast helst af
vetrarákomu, úrkomu, skafrenningi og snjóflóðum, og meðal sumarhita. Þó rúmmál beggja
jöklanna hafi minnkað síðustu árin er Teigarjökull að byggjast upp fyrir nýtt framhlaup.
Verði veðurfar svipað eða hlýrra í framtíðinni en síðustu 10 ár er líklegt að
framhlaupavirkni minnki og jöklar á Tröllaskaga geti horfið á næstu 50 – 100 árum.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Skafti_Brynjolfsson_fixed.pdf | 15,46 MB | Lokaður | Heildartexti |