is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/33100

Titill: 
 • Pneumókokka mótefnavakaleit í þvagi: Gagnsemi Binax NOW S. pneumoniae prófsins og tengsl við sjúkdómsmynd.
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Inngangur: Streptococcus pneumoniae (pneumókokkur) er Gram-jákvæð baktería sem oft er eðlilegur hluti örveruflóru öndunarfæra mannsins. Hana má finna í nefkoki heilbrigðra barna og fullorðinna en hún getur einnig verið alvarlegur sjúkdómsvaldur (e. pathogen). Hún er algengasta bakterían sem veldur eyrnabólgu í börnum en getur valdið heilahimnubólgu og alvarlegum blóðsýkingum bæði hjá börnum og fullorðnum. Þá er hún ein algengasta orsök lungnabólgu sem getur verið lífshótandi með hröðum gangi. Því er mikilvægt að greina sjúkdóminn hratt til þess að geta brugðist fljótt og rétt við. Binax NOW S. pneumoniae greiningapróf mælir mótefnavaka pneumókokka í þvagi. Markmið rannsóknarinnar var að meta gagnsemi greiningarprófsins hjá sjúklingum með staðfesta ífarandi pneumókokkasýkingu sem og tengsl jákvæðs mótefnavakaleitar í þvagi við alvarleika ífarandi pneumókokkasýkinga.
  Efniviður og aðferðir: Nýtt voru gögn um ífarandi pneumókokkasýkingar í pneumókokkagagnagrunni Sýkla- og veirufræðideildar Landspítala á árunum 2006-2017 hjá þeim sjúklingum þar sem einnig var gerð mótefnavakaleit í þvagi (með Binax NOW S. pneumoniae prófi), á svipuðum tíma og blóðræktunin. Alvarleiki sýkinga var metinn með PSI (pneumonia severity index), CURB-65 og quick-SOFA stigunarkerfum. Sjúklingum var skipt upp í hópa eftir alvarleika sýkingar, andláti innan 30 daga ásamt innlögn á gjörgæslu og var hlutfall jákvæðra niðurstaðna úr Binax NOW S. pneumoniae prófi borið saman milli hópa. Forspárgildi prófsins var ákvarðað með því að reikna út næmi og sértæki út frá samanburði við blóð- og hrákaræktanir. Næmi var reiknað út frá fyrrnefndum gögnum Sýkla- og veirufræðideildar Landspítala frá árunum 2006-2017 en sértæki frá árinu 2017.
  Niðurstöður: Þegar blóðræktun var notuð sem gull-viðmið reyndist næmi og sértæki Binax NOW S.pneumoniae vera 72,6% og 97,1% (flatarmál undir ROC ferli = 0,85). Þegar hrákaræktun var notuð sem gull-viðmið reyndist næmi og sértæki vera 71,4% og 89,0% (flatarmál undir ROC ferli = 0,80). Hlutfall jákvæðra niðurstaðna úr prófinu hækkaði eftir því sem alvarleiki jókst í öllum tilfellum (nema í PSI flokki 5) en hækkunin var aðeins marktæk í CURB-65 flokki 3 (p=0,026 skv. tvíkosta aðhvarfsgreiningu). Hlutfall jákvæðra niðurstaðna reyndist marktækt hærra hjá þeim sem létust innan 30 daga samanborið við aðra (p=0,034 skv. Fisher’s exact prófi). Hlutfall jákvæðra niðurstaðna reyndist marktækt hærra hjá þeim sem voru lagðir inn á gjörgæslu samanborið við þá sem voru ekki lagðir inn á gjörgæslu (p=0,008 skv. Fisher’s exact prófi).
  Ályktanir: Niðurstöður þessarar rannsóknar um næmi og sértæki prófsins voru í samræmi við niðurstöður annarra sambærilegra rannsókna. Rannsóknin veitti betri innsýn í gagnsemi Binax NOW S. pneumoniae prófsins sem og tengsl niðurstöðu prófsins við alvarleika, innlögn á gjörgæslu og 30 daga dánartíðni. Gagnlegt væri að skoða stærri rannsóknarhóp og bera saman niðurstöður milli pneumókokka hjúpgerða ásamt því að skoða áhrif niðurstaðna á sýklalyfjaval.

Samþykkt: 
 • 17.5.2019
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/33100


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
MariaRos-Bs ritgerd 16.05.19 (uppfaert).pdf1.01 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
yfirlysing.pdf312.96 kBLokaðurYfirlýsingPDF