is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/33101

Titill: 
  • Nýir Íslendingar og skilvirkni bólusetninga eftir flutning til Íslands
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Inngangur: Innflytjendur eru sífellt stækkandi hluti af íslensku samfélagi. Ólíkar ástæður geta verið fyrir komu þeirra til landins; atvinnutækifæri, menntun eða flótti undan átökum í heimalandinu. Umsækjendur um dvalarleyfi eða alþjóðlega vernd sem koma frá Mið- og Suður Ameríku, Evrópu utan EES, Asíu eða Afríku, þurfa að gangast undir læknisrannsókn við komu til landsins. Í læknisrannsókninni er meðal annars kannað hvaða bólusetningar umsækjandinn hefur fengið og sé þeim ábótavant er honum boðnar bólusetningar í samræmi við leiðbeiningar um almennar bólusetningar hér á landi. Markmið rannsóknarinnar var að kanna stöðu bólusetninga hjá þeim börnum sem koma í þessa læknisrannsókn á Barnaspítala Hringsins og kanna hvort börnin hafi fengið þær bólusetningar sem upp á vantaði hafi átt sér stað hérlendis, og þá hve löngu eftir komu til landsins. Einnig var markmiðið að bera kennsl á þætti sem höfðu áhrif á hvort börnin kláruðu allar viðeigandi bólusetningar.
    Efni og aðferðir: Rannsóknin náði til allra barna sem komu í fyrstu skoðun á Barnaspítala Hringsins eftir komu til landsins frá 1. janúar 2008 til og með 31. desember 2017. Gagnagrunnur frá teymi innflytjendamóttöku Landspítalans, sem samanstendur af læknabréfum frá fyrstu skoðun, var borinn saman við bólusetningagagnagrunn frá Embætti Landlæknis. Af þeim 1172 börnum sem komu í skoðun fundust frekari upplýsingar um 970 börn í Heilsugátt. Notast var Microsoft Excel og RStudio við skráningu gagna og úrvinnslu. Fjölþáttagreining var gerð með tvíkosta aðhvarfsgreiningu til þess að bera kennsl á þætti sem hefðu áhrif á líkur þess að ljúka bólusetningaferlinu.
    Niðurstöður: Á árunum 2008-2017 komu alls 970 börn í skimun á Barnaspítala Hringsins sem höfðu ekki fengið allar sínar barnabólusetningar. Af þeim voru 299 (30,8%) talin bólusett í samræmi við aldur. Alls voru 671 barn (69,2%) sem vantaði einhverjar bólusetningar við komu til landsins, þar af voru 506 börn (52,2%) sem gátu ekki sýnt fram á staðfestingu á bólusetningum við komu til landsins og voru því álitin óbólusett. Af börnum fjögurra ára og yngri fengu 75-85% fyrstu skammta af viðeigandi bóluefnum en 56-69% barna eldri en fimm ára. Börn á grunnskólaaldri voru þrisvar sinnum líklegri en yngri og eldri börn til þess að fullklára bólusetningaferlið.
    Ályktanir: Rannsóknin leiddi í ljós að meirihluti barna sem komu frá ofangreindum löndum vantaði einhverjar bólusetningar miðað við almennar bólusetningar á Íslandi. Hlutfall bólusettra var lægra í þessum hóp ef það er borið saman við almenna þátttöku í bólusetningum á Íslandi. Sambærilegar erlendar rannsóknir hafa sýnt að innflytjendur eru oft verr bólusettir en innfæddir. Börn á grunnskólaaldri voru líklegri en önnur börn til þess að fullklára bólusetningarskemað. Grunnskólabörnum eru boðnar bólusetningar í skólanum en önnur börn þurfa að fá bólusetningar á heilsugæslu. Almenn þátttaka í bólusetningum á Íslandi er góð, en betur þarf að huga að eftirfylgni bólusetninga hjá nýjum Íslendingum. Það er okkar von að þessi rannsókn varpi ljósi á stöðu bólusetninga nýrra Íslendinga og leiði til þess að verklagsreglur verði bættar í von um aukna skilvirkni bólusetninga hjá þessum hóp.

Samþykkt: 
  • 17.5.2019
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/33101


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
jontomas_bs_nyir_islendingar_og_skilvirkni_bolusetninga.pdf1.99 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
BS Yfirlýsing.pdf252.76 kBLokaðurYfirlýsingPDF