is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/33102

Titill: 
 • Æxli í munnvatnskirtlum á Íslandi á árunum 1985-2015
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Inngangur
  Munnvatnskirtilsæxli eru fjölskrúðugur hópur góð- og illkynja æxla, sem lítið hefur verið rannsakaður hérlendis. Algengustu vefjagerðir þeirra erlendis eru mucoepidermoid carcinoma, adenoid cystic carcinoma og pleomorphic adenoma. Aldursstaðlað nýgengi illkynja æxla á heimsvísu er 0,69 á 100.000 hjá körlum og 0,51 á 100.000 hjá konum. Aldursstaðlað nýgengi góðkynja æxla í Japan er 3,5 á 100.000 meðal karla og 3,3 á 100.000 meðal kvenna. Æxlin geta komið fyrir í öllum munnvatnskirtlunum en æxli í vangakirtli (e. parotid gland) eru algengust og æxli í tungudalskirtli (e. sublingual gland) eru mjög fátíð. Aldursstöðluð dánartíðni illkynja æxla í heiminum er 0,18 á 100.000 hjá konum og 0,31 á 100.000 hjá körlum. Horfur hafa ekki breyst síðustu áratugi. Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvaða vefjagerðir munnvatnskirtilsæxla greindust hérlendis, kanna nýgengi þeirra og endurkomutíðni og hver lifun sjúklinga með munnvatnskirtilskrabbamein á Íslandi var á árunum 1985-2015.
  Efni og aðferðir
  Rannsóknin náði til allra þeirra sem greindust með munnvatnskirtilsæxli af þekjuvefsuppruna á Íslandi á tímabilinu 1985-2015. Leitað var að öllum góðkynja og illkynja munnvatnskirtilsæxlum í skrám meinafræðideilda LSH og SAk, skrám Vefjarannsóknarstofunnar og í Krabbameinsskrá Íslands. Upplýsingar um vefjagerð, æxlisgráðu og stærð æxla fengust í vefjagreiningarsvörum. Ef þær upplýsingar skorti voru sýni endurskoðuð. Upplýsingar um meðferð, eftirlit og endurkomur voru fengnar úr sjúkraskrám LSH.
  Niðurstöður
  Á árunum 1985-2015 greindust 715 munnvatnskirtilsæxli hérlendis, þar af 83 illkynja æxli (11,6%). Algengustu vefjagerðir illkynja æxla voru mucoepidermoid carcinoma (24%), acinic cell carcinoma (16%) og adenoid cystic carcinoma (13%). Pleomorphic adenoma var algengast góðkynja æxla (81%) og þar á eftir kom Warthin æxli (15%). Aldursstaðlað nýgengi illkynja æxla hjá körlum var 0,57 á 100.000 en hjá konum var það 0,77 á 100.000. Aldursstaðlað nýgengi góðkynja æxla var 5,0 á 100.000 hjá körlum en 7,0 á 100.000 hjá konum. Endurkomutíðni góðkynja æxla var 7,6% en illkynja æxla 38,6%. Tíu ára sjúkdómssértæk lifun einstaklinga með munnvatnskirtilskrabbamein var 49,1%. Marktækur munur var á lifun eftir æxlisgráðu og TNM stigi. Tíu ára lifun lágráðu, meðalgráðu og hágráðu æxla var 85%, 47% og 11%, í þessari röð. Horfur sjúklinga voru óbreyttar yfir tímabilið.
  Ályktun
  Sömu vefjagerðir munnvatnskirtilsæxla greindust hérlendis, með svipaða innbyrðis tíðni, og í öðrum Evrópulöndum sem gögnin voru borin saman við. Nýgengi munnvatnskirtilsæxla var hærra hjá konum en körlum og hefur haldist óbreytt síðustu áratugi. Nýgengi illkynja æxla var hærra meðal íslenskra kvenna en annarra norræna kvenna. Endurkomutíðni munnvatnskirtilsæxla samræmdist niðurstöðum fyrri rannsókna. Horfur einstaklinga með illkynja æxli ultu að miklu leyti á æxlisgráðu og TNM stigi þess, voru sambærilegar horfum sjúklinga erlendis og voru óbreyttar yfir rannsóknartímabilið.

Samþykkt: 
 • 17.5.2019
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/33102


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
annaliljaaegisdottir_ritgerd.pdf1.7 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Yfirlysing.png178.3 kBLokaðurYfirlýsingPNG