is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/33103

Titill: 
 • Járnhagur íslenskra blóðgjafa í Blóðbankanum 1997 - 2018
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Inngangur: Járnskortur er þekkt vandamál meðal blóðgjafa. Járnskortur getur leitt til blóðleysis og valdið einkennum ótengdum blóðleysi eins og þreytu, skertri vitrænni getu og minnkuðu þreki. Við hverja blóðgjöf tapa karlar um 7% en konur um 11% af meðaljárnbirgðum sínum. Ekki eru allir blóðgjafar í sömu hættu á að fá járnskort og sýnt hefur verið fram á að kyn, aldur, tíðahvörf, fjöldi blóðgjafa og tími frá seinustu blóðgjöf hafa áhrif á járnbirgðir. Verkefnið miðaði að því að skoða dreifingu járn- og blóðhags blóðgjafa í Blóðbankanum, auk þess skoða tíðni járnskorts og blóðleysis við nýskráningu og blóðgjöf. Ferritín hefur verið notað sem mælikvarði á járnhag allra nýskráðra blóðgjafa í Blóðbankanum um langt skeið en hefur einnig verið mælt hjá virkum blóðgjöfum í vissum tilvikum.
  Efniviður og aðferðir: Rannsóknin náði til þeirra blóðgjafa sem höfðu gefið heilblóð eða verið nýskráðir á árunum 1997-2018 og sem einnig áttu niðurstöður blóðhags og/eða serum ferritínmælinga í ProSang tölvukerfi Blóðbankans. Járnhagur blóðgjafa og járnskortur (ferritín <15 μg/l) voru metin út frá serum ferritíngildum. Notast var við blóðrauðagildi (e. hemoglobin) til að skoða dreifingu blóðhags og tíðni blóðleysis meðal blóðgjafa. Blóðleysi var skilgreint sem blóðrauðagildi <130 g/l fyrir karla og <120 g/l fyrir konur.
  Niðurstöður: Ferritín mældist að meðaltali 106 ± 71,3 μg/l hjá nýskráðum karlkyns blóðgjöfum og 38,4 ± 30,0 μg/l hjá nýskráðum kvenkyns blóðgjöfum (p<0.001). Við nýskráningu voru 10,4% kvenna með járnskort en aðeins 0,4% karla (p<0.001). Hjá virkum blóðgjöfum, sem áttu ferritínmælingu, var tíðni járnskorts 26,2% meðal kvenna en 8,8% meðal karla (p<0.001). Hjá konum mældust ferritíngildi hæst í aldurshópnum 50-65 ára bæði við nýskráningu (66,1 ± 56,9 μg/l) og hjá virkum gjöfum (33,5 ± 24,5 μg/l). Fjöldi fyrri blóðgjafa hafði áhrif á ferritíngildi karla sem fóru marktækt lækkandi með auknum fjölda blóðgjafa að 30.-39. blóðgjöf. Tíðni járnskorts var hærri hjá konum sem höfðu gefið blóð 1-9 sinnum (28,3%) en hjá konum sem aldrei höfðu gefið blóð (9,4%) eða höfðu gefið 10-19 sinnum (24,7%, p<0.05). Tíðni járnskorts fór hækkandi með auknum fjölda blóðgjafa að 10.-19. blóðgjöf hjá körlum. Virkir blóðgjafar höfðu marktækt lægri blóðrauðagildi en nýskráðir blóðgjafar hjá báðum kynjum (p<0.001), en munur á blóðrauðagildum hópanna var þó lítill, eða < 2,5 g/l.
  Ályktanir: Hluti blóðgjafa nær ekki að endurnýja járnbirgðir sínar milli blóðgjafa. Ferritíngildi í blóði voru mun lægri og tíðni járnskorts hærri hjá kvenkyns en karlkyns blóðgjöfum, en tíðni járnskorts var hæst hjá ungum konum. Blóðleysi var mjög fátítt sem gæti endurspeglað að blóðgjöfum með lág ferritíngildi er vísað frá áður en járnskortur nær að hafa áhrif á blóðmyndun. Niðurstöðum fyrir virka gjafa þarf þó að taka með fyrirvara þar sem ferritín hefur lengst af ekki verið mælt við hverja blóðgjöf. Til að rannsaka járnhag virkra blóðgjafa nákvæmlega þyrfti að gera ferritínmælingar við hverja blóðgjöf og mæla breytingar á járnhag á milli einstakra blóðgjafa.

Samþykkt: 
 • 17.5.2019
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/33103


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
erla_yfirlysing.pdf447.6 kBLokaðurYfirlýsingPDF
erla_gestsdottir_rett.pdf3.34 MBLokaður til...17.05.2020HeildartextiPDF