is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/33110

Titill: 
  • Greining á undirhópum sjúklinga með sykursýki 2 og afkomu þeirra
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Inngangur: Með vaxandi þekkingu og stöðugri tækniframför á sviði læknavísinda er hægt að greina sjúklinga með nákvæmari hætti en nokkurn tíma áður. Flóknir sjúkdómar á borð við sykursýki 2 krefjast nú nákvæmari greiningar svo unnt sé að beita eins áhrifaríkri og sértækri meðferð og völ er á. Ein sú aðferð sem notuð hefur verið til að greina enn frekar á milli sjúklinga með sykursýki 2 byggist á klasagreiningu til að mynda undirhópa út frá fyrirfram ákveðnum breytum. Með rannsókn Ahlqvist og félaga (Ahlqvist et al. 2018. Lancet Diabetes Endocrinol, 6:361-369) að leiðarljósi leggjum við fram slíka klasagreiningu til að fá metið hvort hægt sé að skilgreina undirhópa sjúklinga með sykursýki 2 úr íslensku þýði, hvað einkenni þá hópa, og hvort munur sé á lyfjameðferð og afkomu milli hópanna.
    Efniviður og aðferðir: Rannsóknarhópurinn var fenginn úr Öldrunarrannsókn Hjartaverndar sem framkvæmd var árin 2002-2006. Alls tóku 5.764 einstaklingar þátt í rannsókninni, þar af 747 með sykursýki 2. Allar mælingar, lyfjaskráningar og lífefnafræðileg gögn voru fengin úr gagnagrunni Hjartaverndar. Til að klasagreina sjúklingana var notuð k-means aðferð þar sem fjöldi klasa var fenginn með fjöldagreiningaraðferðinni NbClust. Breyturnar sem notaðar voru fyrir klasagreiningu voru: Aldur við greiningu, BMI, HBA1c, HOMA-IR og HOMA-B. Lifunargreining var framkvæmd milli klasa með cox proportional hazard aðferð þar sem útkoman var stöðluð fyrir aldri og kyni.
    Niðurstöður: Úr NbClust greiningu fengust 5 hópar. Hópur 2 sýndi hæstu HBA1c gildin (meðaltal 0,95 g/dL), hópur 3 sýndi hæstu HOMA-IR (miðgildi 11,81) og HOMA-B gildin (miðgildi 164,69), hópur 4 sýndi hæsta BMI (meðaltal 35,33) og hópur 5 sýndi lægstan aldur við greiningu (meðaltal 52,47 ár). Hópur 1 hafði engin afgerandi einkenni en þó helst lágt HOMA-IR (miðgildi 3,13) og háan aldur við greiningu (meðaltal 75,75 ár). Hópur 2 var mest meðhöndlaður en af þeim var 96,9% ávísað sykursýkislyfjum, 92,3% súlfónýlúrealyfjum, 76,9% metformíni og 53,8% insúlíni. Hópar 1 og 3 voru minnst meðhöndlaðir með sykursýkislyfjum eða 63,0% og 62,4%. Í lifunargreiningu fékkst marktækur munur milli hópa með tilliti til hjartaáfalla (P = 0,04) og dauða (P = 0,002) þar sem hópar 2 og 3 voru í mestri áhættu fyrir hjartaáföll (HR: 2,28 (95% CI: 1,00 – 5,22) og 2,57 (95% CI: 1,20 – 5,51) miðað við hóp 4 sem var í minnstri áhættu) og hópur 3 fyrir dauða (HR: 1,57 (95% CI: 1,15 - 2,14) miðað við hóp 4).
    Ályktanir: Ljóst er að hægt sé að fá svipaða hópa í íslensku þýði og fengust í rannsókn Ahlqvist og félaga. Með klasagreiningu fæst skýrari mynd á frekari flokkun sjúklinga með sykursýki 2 á Íslandi sem getur gefið verðmætar vísbendingar um afkomu og þróun fylgikvilla fyrir afmarkaða hópa. Greinilegur munur er á meðhöndlun hópanna, bæði á máta sem búast mátti við sbr. súlfónýlúrealyf fyrir hóp 2 til að lækka háan blóðsykur, en einnig á máta sem kemur á óvart sbr. lága tíðni metformíns í hópi 3 sem myndi mögulega hafa mest gagn af hækkuðu insúlínnæmi.

Samþykkt: 
  • 20.5.2019
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/33110


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
BS Ritgerð.pdf1.12 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Stefán Már Jónsson - yfirlýsing.pdf222.63 kBLokaðurYfirlýsingPDF