is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/33111

Titill: 
 • Áföll í æsku og tengsl við fæðingarreynslu kvenna í Ljáðu mér eyra
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Inngangur: Fjöldi rannsókna hefur sýnt fram á að áföll og erfið reynsla í æsku geti haft margvísleg neikvæð áhrif á heilsufar og velferð á fullorðinsárum. Fjöldi tegunda áfalla í æsku hefur m.a verið tengdur við auknar líkur á slæmri útkomu meðgöngu. Um það bil ein af hverjum tuttugu konum (5-6% kvenna) á Íslandi upplifir fæðingu sína sem neikvæða. Neikvæð fæðingarreynsla getur haft neikvæðar afleiðingar fyrir móður og barn. Markmið rannsóknarinnar er að skoða áföll í æsku hjá konum sem sótt hafa þjónustu Ljáðu mér eyra og skoða hvort tengsl séu milli áfalla í æsku og fæðingarreynslu kvenna. Sambærileg rannsókn hefur ekki verið gerð hér á landi.
  Efniðviður og aðferð: Rannsóknarhópurinn voru 118 konur sem sóttu þjónustu Ljáðu mér eyra (LME) á árunum 2016 og 2017. Kennitölur voru fengnar frá hagdeild Landspítalans. Netföng voru fengin úr Sögu sjúkraskrá Landspítalans. Fjörtíu konur voru með virk netföng og var þeim sendur spurningalisti í gegnum forritið Redcap. Svarhlutfall var 62,5% eða 25 konur. Spurningalistinn samanstóð af 10 spurningum um áföll og erfiða reynslu í æsku ásamt 6 spurningum um upplifun síðustu fæðingar, kvíða og þunglyndi á meðgöngunni og eftir fæðinguna og um traust til heilbrigðiskerfis. Gögn um meðgöngu og fæðingu fengust úr sjúkraskrá og frávik og inngrip borin saman við svör spurningalista.
  Niðurstöður: Rúmlega 2/3 (68%) kvennanna höfðu upplifað 1 eða fleiri áföll í æsku, 44% (11) 2 eða fleiri áföll og 20% (5) upplifað 4 eða fleiri áföll í æsku. Nær helmingur (40%) hafði upplifað einhverja tegund af ofbeldi í æsku og 16% upplifað kynferðisofbeldi í æsku. Kvíði og þunglyndi var algengur hjá rannsóknarhópnum en 60% og 36% kvennanna höfðu í meðallagi slæm eða alvarleg einkenni á meðgöngu og 56% og 40% kvennanna höfðu í meðallagi eða alvarleg einkenni kvíða og þunglyndis eftir fæðingu. Inngrip og frávik í fæðingu voru mun algengari meðal kvenna sem höfðu leitað til LME miðað við almennt þýði. Konur sem hafa upplifað ofbeldi eða vanrækslu í æsku og konur sem hafa upplifað tvö eða fleiri áföll í æsku voru við verri andlega heilsu á meðgöngu og eftir fæðingu.
  Ályktanir: Konur sem komið hafa í Ljáðu mér eyra viðtöl virðast vera með fleiri áföll í æsku samanborið við almennt þýði. Einnig virðast inngrip vera algengari hjá þessum hópi og þær greina frá verri andlegri heilsu á meðgöngu og eftir fæðingu. Margt bendir til þess að konur sem hafa upplifað ofbeldi eða vanrækslu í æsku og konur sem hafa upplifað tvö eða fleiri áföll í æsku séu líklegri til að upplifa slæma andlega heilsu á meðgöngu og eftir fæðingu. Íhuga ætti skimun fyrir áföllum í æsku hjá konum á meðgöngu til að hægt sé að veita þeim viðeigandi meðferð og stuðning. Þetta er viðkvæmur hópur sem þarf að hlúa betur að og gera ætti frekari rannsóknir á áföllum í æsku í tengslum við fæðingarreynslu kvenna.

Samþykkt: 
 • 20.5.2019
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/33111


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
UnnurMHardardottir_ritgerd.pdf1.11 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
anonym2851_2019-05-17_11-26-25.pdf293.96 kBLokaðurPDF