is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/33142

Titill: 
 • Heilkenni barnabiksásvelgingar (meconium aspiration syndrome) á Íslandi árin 1977-2018
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Inngangur: Heilkenni barnabiksásvelgingar (HBBÁ) er lungnasjúkdómur nýbura sem getur komið til losi fóstrið barnabik í legvatn og ásvelging verði í kjölfarið. Í alvarlegum tilvikum getur sjúkdómurinn haft í för með sér öndunarbilun, lungnaháþrýsting og jafnvel dauða. Sjúkdómurinn kemur einkum fyrir í fullburða börnum og eru tengsl hans við lengda meðgöngu þekkt. Rannsóknir hafa bent til tengsla HBBÁ við súrefnisþurrð í móðurkviði. Talið er að langvarandi súrefnisþurrð fyrir fæðingu geti valdið þykknun á vöðvalagi lungnaslagæða sem geti stuðlað að lungnaháþrýstingi eftir fæðingu. Tilgangur rannsóknarinnar er að varpa ljósi á faraldsfræði HBBA hér á landi síðustu áratugi auk þess að meta hvernig alvarleiki, meðferð og dánartíðni vegna HBBÁ hefur breyst á rannsóknartímabilinu. Einnig að kanna tengsl sjúkdómsins og merkja um súrefnisþurrð í móðurkviði.
  Efniviður og aðferðir: Afturskyggn, lýsandi rannsókn, að hluta til tilfella-viðmiðarannsókn yfir 42 ára tímabil (1977-2018). Í tilfellahóp voru þau fullburða börn sem fengu greininguna barnabiksásvelging á tímabilinu. Sem viðmið voru valin fjögur fullburða börn sem lögðust inn á Vökudeild næst fyrir og eftir hvert tilfelli. Klínískum upplýsingum var safnað úr Vökudeildarskrá og sjúkraskrám. Vefjasýni voru fengin frá meinafræðideild Landspítalans. Samanburður var gerður á helstu klínísku breytum milli tilfella- og viðmiðahóps, auk fyrri og seinni helminga rannsóknartímabils innan tilfellahóps. Fjölþáttagreining var gerð á hugsanlegum áhættu- og forspárþáttum sjúkdómsins.
  Niðurstöður: 274 fullburða börn greindust með HBBÁ á tímabilinu. Nýgengi á öllu tímabilinu var 1,5 á hver 1000 lifandi fædd börn, en árin 2005-2018 var það 0,8. Dánartíðni var 3,3% en ekkert dauðsfall varð eftir 1993. Tíðni helstu meðferðarþátta hjá sjúklingahópi jókst á seinni hluta rannsóknartímabilsins. Meðgöngulengd ≥40 vikur, kvenkyn og Apgar <7 við 5 mín. voru meðal áhættu- og forspárþátta um sjúkdóminn. Fjöldi kyrndra rauðra blóðkorna hjá börnum sem fengu HBBÁ og þurftu öndunarvélameðferð var hærri en hjá viðmiðahópi. Vöðvalag barna sem létust úr HBBÁ (n=5) mældist þykkara en hjá samanburðarhópi.
  Ályktanir: Lækkun á nýgengi HBBÁ hér á landi síðustu 15 ár er í samræmi við erlendar rannsóknir, en þar hefur hún verið rakin til bættrar fæðingarhjálpar og fyrri framköllun fæðinga. Tilkoma hátíðniöndunarvélameðferðar (1994) og meðferðar með innönduðu nituroxíði (iNO, 1996) hafa líklega bætt lífslíkur barna með HBBÁ. Niðurstöður um áhættuþætti fyrir HBBÁ eru í samræmi við erlendar rannsóknir, en að stúlkur séu líklegri til að greinast með HBBÁ kemur á óvart. Lágur Apgar og aukinn fjöldi kyrndra rauðra blóðkorna hjá börnum með HBBÁ auk þykkara vöðvalags í lungnaslagæðum barna sem létust með HBBÁ styðja að súrefnisskortur fyrir og í fæðingu sé mikilvægur þáttur í tilurð og alvarleika sjúkdómsins.

Samþykkt: 
 • 20.5.2019
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/33142


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
EddaLar001.jpg2.03 MBLokaðurYfirlýsingJPG
BS_EddaLarusdottir.pdf772.13 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna