Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/33320
Mælingar á flúorstyrk í gróðri í umhverfi álversins í Straumsvík hafa verið framkvæmdar í 50 ár eða frá árinu 1968 í tengslum við umhverfisvöktun á mengunarefnum frá verksmiðjunni. Niðurstöður mælinga hafa þó aldrei verið teknar saman á heildstæðan hátt og rýndar. Meginmarkmið þessa verkefnis var að taka saman allar mælingar áranna 1968-2017 í samræmdan gagnagrunn og greina niðurstöður þeirra. Uppsöfnun flúors í gróðri var sett í samhengi við þróun framleiðsluaukningar, bættar mengunarvarnir og þær upplýsingar sem liggja fyrir í erlendum rannsóknum á efninu. Tekin voru saman veðurgögn til þess að leggja mat á hvernig mengun getur dreifst út frá Straumsvík og athugað hvort einhverjir sýnatökustaðir séu úttsettari fyrir mengun en aðrir. Framkvæmd vöktunar á flúor í gróðri hefur verið nánast óbreytt frá upphafi. Sýni hafa verið tekin af barr-, lauftrjám og grasi á föstum sýnatökustöðum sem dreifðir eru um höfuðborgarsvæðið. Einnig hafa verið tekin sýni í Skorradal í Borgarfirði og niðurstöðurnar þaðan notaðar sem bakgrunnsgildi. Helstu niðurstöður rannsóknarverkefnisins sýndu að flúorstyrkur gróðurs fellur eftir því sem dregið hefur úr útblæstri álversins vegna bættra mengunarvarna. Niðurstöður sýndu jafnframt að flúor safnast upp í plöntuvef á vaxtartíma plöntunnar. Sérstaklega er mikil fylgni á flúorstyrk í eins og tveggja ára barrnálum (R2=0,86). Mælingar sýna að hár styrkur flúors hefur mælst í birkitrjám á Garðaholti í Garðabæ. Einnig eru Hellisgerði og Hvaleyrarvatn í Hafnarfirði undir meira álagi en aðrir sýnatökustaðir þar sem birki hefur verið rannsakað. Niðurstöður verkefnisins og greining á framkvæmd flúorvöktunar í gróðri síðustu 50 ár geta verið nýttar til þess að bæta mengunarvöktunaráætlun álversins. Tillögur til betrumbóta eru m.a. fjölgun sýnatökustaða á þeim svæðum sem sýnt hafa að eru undir meira álagi og endurskoðað verði val á sýnategundum.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Yfirlýsing Skemman.pdf | 48.64 kB | Lokaður | Yfirlýsing | ||
Vöktun á loftbornum flúor í gróðri_lokaskjal.pdf | 2.91 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |