is Íslenska en English

Lokaverkefni (Diplóma meistara)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > Diplómaritgerðir - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/33354

Titill: 
 • Áreiðanleiki hefðbundinna röntgenrannsókna við greiningu á áverkum á efri hálshrygg
Námsstig: 
 • Diplóma meistara
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
 • Inngangur: Röntgenrannsóknir eru notaðar til sjúkdómsgreininga og eru mjög mikilvægar þar sem klínísk skoðun á sjúklingum með grun um hálsáverka er ekki áreiðanleg. Hefðbundin röntgenrannsókn er oft ekki nógu nákvæm þegar kemur að greiningu áverka í efri hálshrygg, tölvusneiðmyndarannsókn gefur betri mynd af áverkum sjúklinga en slík rannsókn er mun dýrari og geislaþyngri en hefðbundnar röntgenrannsóknir.
  Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvort röntgenmyndir af efri hálshryggnum uppfylli nauðsynlegar kröfur og kanna hvort að þær veiti nægar upplýsingar til þess að hægt sé að greina brot eða gróanda brota.
  Efni og aðferðir: Rannsóknin er afturvirk og var gerð á 25 einstaklingum sem greindust á Landspítala háskólasjúkrahúsi með hálsbrot í efri hálshrygg. Sjúkraskrár og myndrannsóknir einstaklinga sem grunaðir voru um áverka á þessu svæði voru notuð við gagnasöfnun. Skráð var orsök óhapps, sjúkdómsgreining/ar, myndgreiningaraðferðir og tímasetningar þessara atriða. Allar röntgenmyndir sem teknar voru sérstaklega af efri hálshryggnum, svokallaðar dens myndir, voru metnar og fyllt var inn í einkunnartöflu fyrir hverja og eina mynd. Notast var við þrjú ákveðin viðmið og einkunn gefin fyrir hvert atriði. Metið var hvort að dens væri sýnilegur, hvort opið væri inn í atlanto-axial liðinn og hvort hann væri samhverfur. Við gagnaöflun var notast við skilgreinda rannsóknartölvu á Landspítalanum í Fossvogi og myndirnar skoðaðar í Enterprise Imaging. Microsoft Excel var notað við alla gagnasöfnun og úrvinnslu.
  Niðurstöður: Tuttugu og tveir sjúklingar greindust með brot í tölvusneiðmyndarrannsókn en þrír í hefðbundinni röntgenrannsókn. Þessir þrír sjúklingar voru sendir strax í tölvusneiðmyndarannsókn eftir að hafa greinst í röntgenrannsókn. Í heildina var tekin 51 dens mynd af þessum 25 sjúklingum, ein til sex myndir af hverjum sjúkling.
  Tíu myndir af þeim 51 sem metnar voru fengu hæstu einkunn fyrir öll þrjú viðmiðin, þ.e.a.s. 12 stig í heildina. Þrettán myndir sýndu dens vel og fengu fjóra í einkunn fyrir það viðmið, sem eru 25% mynda. Tuttugu og sex myndir sýndu vel inn í atlanto-axial liðinn og fengu hæstu einkunn fyrir það viðmið, sem eru 51% mynda og 28 myndir sýndu samhverfan atlanto-axial lið og fengu hæstu einkunn fyrir það viðmið, sem eru 55% mynda.
  Ályktanir: Í öllum tilvikum þar sem brot var fyrst greint á röntgenmyndum var sjúklingurinn strax sendur í tölvusneiðmyndarannsókn af beiðni röntgensérfræðilæknis sem las úr röntgenrannsókninni. Það gefur í skyn að þær röntgenmyndir sem teknar eru sérstaklega af efri hálshrygg, dens myndir, gefi ekki nægilegar upplýsingar til þess að hægt sé að greina örugglega brot og gróanda brota.

Samþykkt: 
 • 31.5.2019
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/33354


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Areidanleiki hefdbundinna rontgenrannsokna.pdf931.44 kBOpinnPDFSkoða/Opna
Yfirlýsing.pdf519.35 kBLokaðurYfirlýsingPDF