Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/33377
Síðustu 20 ár hefur sítratflutningspróteinið Indy í Drosophila melanogaster fengið mikla athygli vegna möguleika á að nota það sem lyfjamark í meðferðum við lífsstílstengdum sjúkdómum. Ástæðan er sú að flugur með stökkbreytingar, sem valda bælingu próteinsins, lifa lengur og svipgerð þeirra er eins og hjá flugum sem borða minna. Samsvarandi prótein hefur fundist í spendýrum, SLC13A5, sem stökkbreytingar í valda svipuðum áhrifum og á flugur. Nýlega uppgötvuðust stökkbreytingar hjá mönnum, í þessu sama geni, sem valda alvarlegri flogaveiki vegna heilakvilla, CTD. Ekki eru til lyf gegn sjúkdómnum sem tveir sjúklingar hafa greinst með hér á landi. Þekkt stökkbreyting í SLC13A5, G219R, er um 20 sinnum algengari í Íslendingum en í öðrum Evrópubúum.
Í þessu verkefni var plasmíð hannað með SLC13A5 innskoti til tjáningar í mannafrumum. Fjórar þekktar íslenskar stökkbreytingar voru innleiddar á geninu og plasmíðin voru raðgreind til staðfestingar. Hönnun plasmíða með óstökkbreyttu SLC13A5 og þremur stökkbreytinganna tókust.
Ekki hefur tekist að sýna fram á að bæling Indy í D. melanogaster valdi flogaveiki en próteinið er tjáð í ýmsum frumum sem koma nálægt taugakerfinu. Gerð voru flogapróf á flugum með bælda tjáningu á Indy í glialfrumum. Ekki tókst að safna nógu mörgum flugum af F1 kynslóð til að niðurstöður væru marktækar en áhugavert væri að endurtaka prófin síðar auk fleiri prófa til að kanna hlutverk próteinsins í taugakerfi fluga.
CTD er alvarlegur sjúkdómur sem getur umturnað lífi heilu fjölskyldnanna. Mikilvægt er að lækning finnist sem fyrst og getur þetta verkefni vonandi nýst á þeirri vegferð.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Hönnun plasmíða með SLC13A5 stökkbrigðum og bæling Indy í Drosophila melanogaster.pdf | 960.79 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Yfirlýsing.pdf | 293.7 kB | Lokaður | Yfirlýsing |