is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Hugvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Hugvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/3345

Titill: 
 • Ragnarökkur og Þór og þrautirnar þrjár
Námsstig: 
 • Meistara
Útdráttur: 
 • Grýla hefur hrætt líftóruna úr börnum í aldaraðir. Jónas Jónasson frá Hrafnagili lýsti því hvernig börnum á 18. og 19. öld var talin trú um að Grýla æti þau ef þau voru ekki nógu dugleg að sinna skylduprjónaskapnum eða ef þau voru á einhvern hátt óþæg. Við teljum okkur vera siðmenntari en svo nú á dögum, og erum það vissulega á mörgum sviðum. Svokölluð barnaþrælkun er til að mynda ekki algeng hér á landi, þótt iðulega sé gripið til grýlnanna við uppeldið. Grýlurnar í lífi okkar eru reyndar svo margar að ítarlegur listi yrði seint fullkláraður. Glanni glæpur streðar við að reyna að gabba alla í Latabæ til að liggja í leti með sér. Aparnir sem stríða krókódílnum í vinsælu leikskólalagi greiða fyrir misyndisskapinn þegar krókódíllinn étur þá upp til agna, einn í einu. Foreldrar hvarvetna segja börnum sínum að jólasveinarnir gefi þeim kartöflur í skóinn ef þau eru ekki þæg. Grýlur lifa greinilega góðu lífi þótt að hin eina sanna Grýla eigi að heita dauð. Og það er ekkert skrítið vegna þess að grýlur þjóna veigamiklu hlutverki í uppeldi barna og aðlögun þeirra að gildandi venjum samfélagsins. Ævintýri Grimms bræðra eru til að mynda morandi í lexíum um hvernig best sé að haga lífi sínu. Mörg ævintýranna flokkast undir varnaðarsögur, en slíkar sögur refsa þeim sögupersónum sem sýna óæskilega hegðun. Þessi frásagnaraðferð er mikið notuð enn í dag við gerð barnaefnis. Sögunum er ætlað að móta hegðun ungmenna með því að kenna þeim að hver sá sem brýtur af sér fái makleg málagjöld. Svona eins og þegar börnum er sagt að Grýla éti óþekk börn. Eða að Guð fylgist með hverri hreyfingu þeirra. Eða jafnvel að ósnyrtar neglur verði byggingarefni í skipinu Naglfari?
  Það má greina ýmsar hliðstæður á milli ævintýra og þeirra goðsagna sem Snorri Sturluson skráði niður. Í báðum eru til að mynda oftast skýr mörk á milli hetja og skúrka og það má gjarnan finna ekta ævintýraminni í goðsögunum. Það er þess vegna full ástæða til að velta fyrir sér hvert varnaðarsögugildi goðsagnanna gæti hafa verið. Lýsingar af Naglfari falla til dæmis fullkomlega undir skilgreiningu varnaðarsagna. Þær fela í sér gildishlaðinn boðskap, þ.e. ef menn eru ekki duglegir að klippa neglurnar sínar og deyja með langar neglur þá stækkar umfang skipsins. Vissulega frekar sjúkleg lýsing miðað við uppeldisaðferðir okkar tíma, en ef ævintýri fyrri alda eru skoðuð þá stingur þessi lýsing ekki svo mjög í stúf. Í ævintýrum Grimms bræðra er að finna mannætur, (stjúp)foreldra sem pynta börnin sín og mannfórnir. Þar er líka sagt frá börnum sem eru skilin eftir eða þeim hent út af heimili sínu og fólk er blindað, hakkað niður í bita og jafnvel grafið lifandi. Ókindarkvæðið er ekki síður ógeðfellt. Í þessu gamla íslenska kvæði er því lýst í smáatriðum hvernig ókind nokkur lemur lítið barn svo illilega að það missir tönn og úr því dettur blábarið auga. Ókindin heldur svo barsmíðunum áfram uns maður nokkur kemur loks að og bjargar barninu. Sú ógn að neglur dauðra manna auki umfang Naglfars virðist hálf máttvana í samanburðinum.
  Í ljósi þessa alls langaði mig til þess að skoða hvernig sagan af Naglfari liti út sem varnaðarsaga ætluð börnum og hvort það þyrfti miklar breytingar til þess að hún virki sem slík.
  Hugmyndin að því að skoða sögurnar út frá því að Þór sé á barnsaldri hafði ég fengið fyrr. Dóttir mín var á því þroskaskeiði þar sem hún henti öllu í gólfið þegar hún fékk þórshamar úr frauði að gjöf. Ég þurfti þess vegna að tína gripinn hvað eftir annað upp úr gólfinu og rétta henni aftur. Þá varð mér hugsað til Þórs. Vissulega var hamarinn töfrum gæddur, að snúa sjálfkrafa aftur til eigandans, líkt og banvænn bjúgverpill. En mér þótti skondið að sjá hamarinn fyrir mér sem leikfang. Barnavænn kastgripur. Og þar með fór allt af stað. Loki breyttist í baldinn ungling, enda ævintýragjarn og sjálfhverfur og skortir í mörgum sögum samfélagsvitund og ábyrgðartilfinningu. Óðinn varð skyndilega ekki endilega svo gamall, þ.e.a.s. ekki gráskeggjað gamalmenni, því séð frá sjónarhorni barns eru allir yfir táningsaldri ellihrumir forngripir. Það breyttist sannarlega margt þegar ég fór að sjá Þór fyrir mér sem barn.

Samþykkt: 
 • 6.10.2008
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/3345


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Eydis_Bjornsdottir_fixed.pdf313.73 kBLokaðurHeildartextiPDF