is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Landbúnaðarháskóli Íslands > Auðlinda- og umhverfisdeild (2017-2019) > B.S. verkefni >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/33485

Titill: 
 • Böggvisstaðasandur útivistarperla í þéttbýli
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Segja má að öll náttúran sé útivistarsvæði landsmanna og víða um land má finna staði sem stuðla að bættri lýðheilsu. Eitt þeirra er Böggvisstaðasandur við Dalvík eða Sandurinn í daglegu tali heimamanna, sem er falin náttúruperla. Sandurinn liggur í austur frá Dalvík og tilheyrir friðlandi Svarfdæla. Af svæðinu er gott útsýni út Eyjafjörð, yfir Hrísey og Látraströnd. Svæðið er mikið nýtt til útivistar af íbúum bæjarins allan ársins hring. Margir leggja leið sína eftir endilöngum sandinum að árósum Svarfaðardalsár.
  Rannsóknir hafa sýnt að nálægð mannsins við náttúrulegt umhverfi, þá sérstaklega við hafið, hefur mjög jákvæð áhrif á andlega heilsu fólks. Staðarímynd og staðarsjálfsmynd eru þættir sem skipta meginmáli þegar kemur að mörkun svæða. Staðarímyndin er sú mynd sem verður til um svæði í hugum manna út frá ýmsum þáttum, t.d. eigin reynslu, gildismati, viðhorfum og væntingum. Þá hafa ýmsir miðlar einnig áhrif þar. Staðarsjálfsmyndin byggist svo meðal annars á menningu, landslagi, veðri og sögu staðarins. Á þessu byggist andinn, upplifunin og tenging fólks við staði og svæði. Markmið þessa verkefnis er að skoða hvaða tækifærum útivistarsvæðið á Böggvisstaðasandi býr yfir með tilliti til staðarímyndar og áhrifa hafs og náttúru á lýðheilsu.
  Í framhaldi af umfjöllun um svæðið og greiningu á því, er sett fram hönnunartillaga með tilliti til bættra möguleika á útivist og betra aðgengis fyrir alla að svæðinu. Hönnunarforsendur verkefnisins voru unnar út frá því að vinna á veikleikum og ógnum svæðisins með styrkleikum og tækifærum þess. Tillagan miðar að því að því að auka aðdráttarafl og bæta tækifæri til útivistar á Sandinum. Það er gert með bættu aðgengi að svæðinu fyrir alla og betri tengingu við miðbæinn. Þá er lögð áhersla á fjölbreyttari möguleika á afþreyingu og útivist, t.d. með setu- og dvalaraðstöðu, sjóbaðsaðstöðu og tengingu við nálæga hluta friðlands Svarfdæla. Þetta eru þættir sem bæta ímynd svæðisins og auka aðdráttarafl þess fyrir bæjarbúa og gera það um leið verðmætara fyrir samfélagið. Við hönnunina var horft til sögunnar og lagt upp úr tengingu við sjóinn og þá ímynd sem Dalvík hefur sem sjávar- og útgerðarpláss.
  Verkefnið ætti að hafa yfirfærslugildi annarra svæða og opna augu manna fyrir nærumhverfinu líkt og Böggvisstaðasandur.

Samþykkt: 
 • 4.6.2019
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/33485


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
BS_ LáraIngimundardóttir_02.05.19.pdf23.19 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna