is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/3350

Titill: 
  • Það dró mig niður, alveg endalaust, þessi endalausi sársauki. Reynsla og líðan kvenna sem fá verki í geirvörtur við brjóstagjöf
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Verkir í geirvörtum við brjóstagjöf eru algeng ástæða fyrir því að konur hætta
    með börn sín á brjósti. Samkvæmt fyrirliggjandi rannsóknum finna 33-96%
    mæðra fyrir verkjum í geirvörtum á brjóstagjafatímanum. Fáar rannsóknir hafa
    skoðað reynslu kvenna af þessu vandamáli. Tekin voru viðtöl við tíu konur til að
    skoða reynslu þeirra af því að fá verki í geirvörtur við brjóstagjöf. Einnig var
    reynsla kvennanna af meðferðarúrræðum könnuð og skoðað hvort verkir í
    geirvörtum við brjóstagjöf hefðu áhrif á framvindu brjóstagjafar. Einnig var
    spurt um reynslu af stuðningi ljósmæðra og annarra heilbrigðisstarfsmanna við
    brjóstagjöf.
    Rannsóknin er eigindleg viðtalsrannsókn og var fyrirbærafræði
    (phenomenology) valin sem aðferðafræðilegur grunnur rannsóknar. Mæðurnar
    voru á aldrinum 18 til 42 ára, flestar giftar eða í sambúð. Fimm voru með
    háskólamenntun, ein með iðnmenntun, ein hafði lokið framhaldsskóla og þrjár
    voru með grunnskólapróf. Sjö konur áttu börn fyrir og höfðu reynslu af
    brjóstagjöf, en þrjá konur voru að eignast sitt fyrsta barn. Sjö mæður áttu einbura
    og þrjár tvíbura.
    Helstu niðurstöður rannsóknar voru að konurnar áttu í erfiðleikum með að leggja
    börn sín rétt á brjóst. Þær fengu áverka á geirvörtur og verulega verki sem leiddu
    til andlegrar vanlíðanar. Konurnar kviðu fyrir því að leggja börnin á brjóst,
    fundu til þreytu og vanmáttarkenndar. Í sumum tilvikum leiddu verkirnir til þess
    að konurnar hættu með börn sín á brjósti. Konunum reyndist vel að bleyta
    geirvörtur fyrir gjöf, nota plastfilmu á geirvörtur milli gjafa, nota mexikanahatt á
    geirvörtur við brjóstagjöf og að nota mjaltavél tímabundið. Konurnar töldu
    fræðslu um brjóstagjöf á meðgöngu hafa verið of litla, en þær voru ánægðar með
    fræðslu og stuðning sem þær fengu á sængurkvennadeildinni.
    Efla þarf fræðslu um brjóstagjöf á meðgöngu og í sængurlegu. Á meðgöngu þarf
    að ræða fyrirhugaða brjóstagjöf við verðandi mæður með það að markmiði að efla sjálfstraust þeirra til brjóstagjafar. Í sængurlegu þarf að kenna konum að
    leggja börn sín rétt á brjóst, því að rannsóknir hafa sýnt að það er öflugasta
    leiðin til að fyrirbyggja verki í geirvörtum við brjóstagjöf.

Samþykkt: 
  • 6.2.2009
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/3350


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Sveinbjorg_Brynjolfsdottir_fixed.pdf2,39 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna