is Íslenska en English

Lokaverkefni (Diplóma meistara)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > Kandídatsritgerðir >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/33500

Titill: 
 • Fæðingarmáti eftir fyrri keisaraskurð. Hindrandi og hvetjandi þættir á ákvörðun kvenna
Námsstig: 
 • Diplóma meistara
Útdráttur: 
 • Tíðni keisaraskurða fer hækkandi um heim allan en algengastir eru endurteknir keisaraskurðir eftir fyrri fæðingu með keisaraskurði. Flestar konur eru færar um að fæða barn um fæðingarveg, þrátt fyrir að eiga að baki fæðingu með keisaraskurði og er það í raun æskilegur fæðingarmáti ef ekki eru frábendingar til staðar. Það eru ýmsir þættir sem hafa áhrif á ákvörðun kvenna um fæðingarmáta eftir fyrri fæðingu með keisaraskurði, sem mikilvægt er að fagaðilar hafi í huga við umönnun þeirra í barneignarferlinu. Mikilvægt er að ljósmæður og aðrir fagaðilar styðji við konurnar og aðstoði þær við að vinna úr fyrri fæðingarreynslu áður en kemur að næstu fæðingu.
  Tilgangur þessarar fræðilegu samantektar var að öðlast innsýn í hvað það er sem hefur helst áhrif á ákvörðun kvenna um fæðingarmáta eftir fyrri fæðingu með keisaraskurði og hverskonar barneignarþjónustu og stuðning konur, með keisaraskurð að baki, þurfa. Markmiðið var að svara eftirfarandi rannsóknarspurningum: Hvað hefur áhrif á ákvörðun kvenna um fæðingarmáta eftir fyrri keisaraskurð? og hvernig geta ljósmæður stutt við konur sem stefna á fæðingu um fæðingarveg eftir fyrri keisaraskurð? Fræðilegra heimilda var leitað í gagnagrunnunum PubMed og Google Scholar. Í heild voru notaðar 25 ritrýndar erlendar fræðigreinar, klínískar leiðbeiningar og heimildir frá opinberum stofnunum og nokkrar íslenskar fræðigreinar og blaðagreinar. Almennt var leitast eftir greinum frá árunum 2009-2019.
  Niðurstöður fræðilegu samantektarinnar leiddu í ljós að þeir þættir sem helst hafa hindrandi áhrif á ákvörðun kvenna um fæðingarmáta eftir fyrri fæðingu með keisaraskurði eru neikvæð fyrri fæðingarreynsla og fæðingarótti sem fylgt getur í kjölfarið ásamt neikvæðum viðhorfum og orðræðu bæði fagfólks og samfélaga um fæðingu um fæðingarveg eftir fyrri keisaraskurð. Stærsti hvetjandi áhrifaþátturinn í átt að fæðingu um fæðingarveg eftir fyrri fæðingu með keisaraskurði er þrá kvenna um að eiga náttúrulega fæðingu um fæðingarveg og trú þeirra á eigin getu til þess. Stuðningur og reynslusögur frá konum sem hafa fætt um fæðingarveg eftir fyrri fæðingu með keisaraskurði er einnig stór hvetjandi þáttur. Stuðningur og hvatning fagaðila eins og til dæmis ljósmæðra og samfelld þjónusta þeirra, er eitthvað sem getur aukið sjálfsöryggi kvenna og trú þeirra á eigin getu og því hvetjandi þáttur í ákvörðun kvenna um að reyna fæðingu um fæðingarveg eftir fyrri keisaraskurð.
  Samfelld þjónusta hefur ekki verið í boði á Íslandi fyrir konur með fyrri keisaraskurð að baki þrátt fyrir að sá hópur barnshafandi kvenna myndi líklega gagnast mikið af slíkri þjónustu. Ákjósanlegt væri ef ljósmæður hefðu kost á að bjóða upp á slíka þjónustu en þannig væri hægt að auka gæði þjónustunnar og persónulegum fræðslu og stuðningsþörfum kvenna betur mætt. Þannig gætu ljósmæður lagt sitt að mörkum og stuðlað að fækkun óþarfa endurtekinna keisaraskurða.
  Lykilorð: Fæðing um fæðingarveg, keisaraskurður, fæðingarreynsla, samfelld þjónusta, stuðningur, fræðsla.

Samþykkt: 
 • 5.6.2019
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/33500


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Lokaverkefni - Tilbúið verkefni2.pdf461.91 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Skemman_yfirlysing-signed.pdf353.38 kBLokaðurYfirlýsing um meðgerð á lokaverkefniPDF