Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/33557
Fyrstu dagarnir og vikurnar eftir fæðingu eru mikilvægir og viðkvæmt tímabil í lífi móður og barns en samt sem áður eitt það vanræktasta í barneignarferlinu. Mæður upplifa oft eins og þær séu illa undirbúnar fyrir þær tilfinningalegu, líkamlegu og félagslegu breytingar sem eiga sér stað eftir fæðingu. Gæðaþjónusta í heilbrigðiskerfinu hefur það markmið að veita heildaræna, líkamlega, andlega og félagslega umönnun. Sú þjónusta sem í boði er fyrir konur eftir fæðingu hefur verið töluvert skoðuð innan ljósmóðurfræðinnar og er heilsusamtal eftir fæðingu eitt af því sem gæti talist hjálplegt fyrir nýbakaðar mæður.
Tilgangur verkefnisins er að fjalla um hvort æskilegt sé að bjóða upp á heilsusamtal 6-8 vikum eftir fæðingu sem hluta af samfelldri þjónustu ljósmæðra á heilsugæslu. Þar gæfist konum tækifæri á að ræða um almenna líðan og fæðingarupplifun, ásamt því að boðið væri upp á getnaðarvarnarráðgjöf og eftirskoðun. Í þessu verkefni er borin saman þjónustan hérlendis eftir fæðingu og annars staðar í heiminum, þá aðallega í Svíþjóð. Gerð er fræðileg samantekt og unnið úr ritrýndum fræðigreinum, frá árunum 2002-2019.
Niðurstöður rannsókna sýna að meirihluti kvenna hafi ríka þörf fyrir að tala um fæðingarreynslu sína og getur það einnig hjálpað þeim mæðrum sem eiga við kvíða, þunglyndi og streitu að stríða. Hætt er við að mæður sem ekki hafa kost á samtali við fagaðila eftir fæðingu loki á upplifun sína, sem getur valdið vandamálum seinna meir. Rannsóknir eru þó að einhverju leyti misvísandi varðandi hversu hjálplegt slíkt samtal er fyrir mæður sem orðið hafa fyrir áfalli í fæðingu, þar sem sumar þeirra sýna ekki fram á marktækan mun á andlegri líðan kvenna. Út frá þeim niðurstöðum mælir NICE ekki formlega með því á að bjóða upp á samtal eftir fæðingu.
Það myndast ákveðið samfellt þjónustuform þegar boðið er upp á heilsusamtal. Konur sækjast eftir samfellu og með því að eiga slíkt samtal við ljósmóðir sem þær þekkja upplifa þær meira öryggi og vissu og hafa minni þörf fyrir frekari eftirfylgni. Bjóða ætti konum upp á samtal við ljósmóður innan heilsu¬gæslunnar eftir fæðingu en það getur haft víðtæk áhrif á andlega og líkamlega heilsu kvenna og fjölskyldna þeirra til framtíðar.
Lykilorð: þjónusta eftir fæðingu (postnatal care), samfelld þjónusta (continuum of care), neikvæð fæðingarupplifun (negative birth experience), ljósmóðurfræði (midwifery)
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Lokaverkefni -Sandra í Skemmu.pdf | 577,71 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
sandra.jpg | 1,81 MB | Lokaður | JPG |