is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara) Háskóli Íslands > Verkfræði- og náttúruvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Verkfræði- og náttúruvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/3367

Titill: 
 • „Undur yfir dundu.“ Áhrif Kötlugossins 1918 á byggð og samfélag í Vestur-Skaftafellssýslu
Námsstig: 
 • Meistara
Útdráttur: 
 • Gosin í Kötlu hafa í gegnum tíðina eytt gróðri og byggð í nágrenni Kötlu. Hættulegustu fylgifiskar gossins eru öskufall, jökulhlaup og eldingar í gosmekki. Tilgangur rannsóknarinnar er að fá innsýn inn í þær aðstæður sem urðu hjá íbúum í
  Vestur-Skaftafellssýslu í kjölfar Kötlugossins 1918. Byggist nálgunin á því að skoða samtímaheimildir frá þessum tíma. Annars vegar eru það töluleg gögn sem finna má í manntölum, prestþjónustubókum og búnaðarskýrslum og hins vegar eru þetta frásagnir sjónarvotta er upplifðu Kötlugosið 1918.
  Hugtakið varnarleysi skiptist upp í náttúrulegt varnarleysi sem ræðst af þeirri ógn sem náttúruvá veldur og mannlegt varnarleysi sem ræðst af félagslegum, efnahagslegum, stjórnmálalegum og menningarlegum þáttum innan hvers samfélags.
  Þessir tveir þættir voru notaðir sem einskonar mælieining á það hversu gífurlegar hamfarirnar voru innan hvers hrepps í sýslunni. Mannlegt varnarleysi réðst fyrst og fremst á því hversu einhæft bændasamfélagið var á þessum tíma þar sem tæknivæðing var lítil sem engin og afkoma bænda réðst af því hversu góðar jarðirnar voru fyrir búfénaðinn og hversu vel landið gaf af sér.
  Heyöflun var búin að vera lítil um sumarið 1918 vegna frosthörkunnar í janúar sama ár. Því voru bændur mun viðkvæmari fyrir hvers kyns áföllum í náttúrunni sem drógu enn meira úr afkomumöguleikum þeirra. Náttúrulegt varnarleysi var aðallega háð a) staðsetningu jarðanna, það er hversu berskjaldaðar þær voru gagnvart áhrifum frá gosinu, b) hver ríkjandi vindátt var á gostímabilinu sem réð því hvar öskufall deyfðist mest og c) hvar Kötluhlaupið kom undan jöklinum. Skaftártunga, Álftaver og Meðalland komu verst út úr gosinu. Í Skaftártungu var það aðallega öskufallið sem olli mestum usla og tók það sumar jarðir mörg ár að ná sér aftur. Sveitin lá ekki aðeins nálægt eldstöðinni því ríkjandi vindátt var vestan og suðvestan átt sem leiddi til þess að gosmökkurinn var mest megnis yfir Skaftártungu út allt gostímabilið. Í Álftaveri og Meðallandi var það jökulhlaupið sem olli mestum skemmdum á jörðunum. Ekkert manntjón varð í gosinu en um nokkur hundruð sauðfjár ásamt 37 hestum féllu.
  Nokkuð var um brottflutning á fólki í kjölfar gossins þó aðallega úr Skaftártungu eða 32 manneskjur og úr Álftaveri 46 manneskjur. Í Kirkjubæjarhreppi fækkaði um eitt býli á jörðinni Skaftárdal til ársins 1923. Í Skaftártunguhreppi fóru fjórar jarðir í eyði; jörðin Snæbýli var óbyggileg til ársins 1926, jörðin Ljótarstaðir til ársins 1920, jörðin Búlandssel var óbyggileg til ársins 1923 og jörðin Svartinúpur fór alveg í eyði. Í Álftavershreppi fóru tvær jarðir algjörlega í eyði; jörðin Skálmarbæjarhraun og Sauðhúsnes. Einnig fækkaði um eitt býli á jörðinni Holti. Í Leiðvallarhreppi fór jörðin Sandar í eyði þegar gosið var nýafstaðið enda gjöreyðilagðist hún í hlaupinu. Um vorið 1919 var fjölskylda úr Skaftártungu búin að setjast þar að. Í Hvammshreppi fara tvær jarðir algjörlega í eyði;
  jörðin Breiðahlíð og jörðin Engigarður.
  Í heildina má segja að Kötlugosið 1918 hafi valdið miklu fjárhagslegu og tilfinningarlegu tjóni fyrir íbúa í Vestur-Skaftafellssýslu. Tjónið var þó mismikið eftir því hvar fólk var niðurkomið í sýslunni. Verst kom það niður hjá bændum í Skaftártungu, Álftaveri og Meðallandi þar sem túnin voru sum hver alveg eyðilögð af ösku, sandi og jökuleðju. Þetta leiddi til þess að margir sáu sér ekki fært að búa lengur á jörðum sínum og leituðu sér hælis í þorpum við sjávarsíðuna.
  Liðin eru 90 ár frá því að Katla gaus seinast og er þetta því með lengstu goshléum ef miðað er við undanfarin gos. Vísindamenn hafa verið að velta fyrir sér þeim afleiðingum sem Kötlugos geta valdið þó aðallega hvar hlaupið mun fara og hvaða
  svæði í nágrenni við eldstöðina munu verða í mestri hættu. Íslenskar jarðvísindastofnanir hafa tekið höndum saman og fylgst með framvindu ýmissa þátta sem geta gefið ákveðnar upplýsingar um fyrirvara fyrir yfirvofandi gos. Einnig má nefna að Almannavarnir ríkisins hafa gert áhættugreiningu vegna hugsanlegs Kötlugoss og jökulhlaups samfara því.
  Mikilvægt er að skoða afleiðingar fyrri gosa í Kötlu svo og afleiðingar nýlegra eldgosa í tæknivæddum samfélögum til að hægt sé að gefa sér einhverjar hugmyndir um hverjar afleiðingarnar munu verða í dag. Líklegt er að gosið muni hafa meiri áhrif á bændasamfélagið í sýslunni þar sem afkoma þeirra er að miklu leyti háð landinu og
  hvað það gefur af sér. Þó er líklegt að bændur getir snúið til annarra starfa þar sem það er mun aðgengilegra nú en áður.

Samþykkt: 
 • 10.10.2008
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/3367


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Anna_Lilja_Oddsdottir_fixed.pdf5.69 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna