Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/33707
Í ritgerðinni lýsi ég upplifun minni úr gönguferðum við Helgafell í Hafnarfirði út frá kenningum fyrirbæra- og fagurfræði. Fyrirbærafræði snýst um að beina athyglinni að skynjuninni, upplifa heiminn og umhverfið í gegnum skynfærin og er ætlað að lýsa því sem við skynjum og upplifum, en ekki að sundurgreina og flokka eins og náttúruvísindin leggja áherslu á. Hugtökin fyrirbæri, ætlandi, frestun og afturfærsla eru útskýrð til að varpa ljósi á hvernig hægt er að nýta fyrirbærafræði í daglegu lífi. Áhersla á persónulega reynslu, tengsl manns og jarðar og hvernig við upplifum veruleikann og sjálf okkur í gegnum landslag, er sameiginlegt með nýlegum hugmyndunum sem ganga þvert á landamæri fræðiheimsins og fjallað er um í ritgerðinni. Fegurðarhugtakið býður upp á að hugsa og lifa handan við tvíhyggju vitundar og viðfangs / þess huglæga og hlutlæga. Fegurð sem tengsl á milli vitundar og viðfangs og upplifanir af fegurð gera okkur kleift að sjá okkur sjálf sem verur í tengslum við aðra og heiminn. Hugtökin hold (e. flesh), samhuglægni (e. inter-subjectivity) og samskynjun eru útskýrð til að varpa ljósi á upplifun af fegurð. Ég tengi í ritgerðinni hugmyndir fyrirbærafræðinnar við náttúruskynjunina sem ég upplifði á gönguferðum mínum við Helgafell. Í gegnum göngu getum við sett hluti í nýtt samhengi, lært af því óvænta og leyft ímyndunaraflinu að leika lausum hala. Náttúran býður þeim sem örmagnast í streitulífsstíl nútímans að endurhlaða orkuna með því að dvelja í náttúrunni. Að ástunda fyrirbærafræði er að leitast við að endurheimta hin einlægu tengsl mannsins við heiminn, þannig getur landslag orðið framtíðarheilsulind.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Á höttunum eftir fegurð Árdís Sigmundsdóttir.pdf | 1.13 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |