Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/3405
Mannréttindi skipa sífellt veigameiri sess innan alþjóðasamfélagsins, þar með talið innan þróunargeirans. Samfara auknu vægi mannréttinda hefur sú hugmyndafræði notið vaxandi fylgis að efling mannréttinda sé órjúfanlegur hluti árangursríkrar þróunarsamvinnu. Afsprengi þessarar hugmyndafræði er hin svo kallaða „réttindamiðuð nálgun að þróun” (e. rights-based approch to development) sem sameinar bæði hugsjónir og markmið mannréttinda og þróunar.
Markmið þessarar meistararitgerðar í þróunarfræðum og alþjóðasamskiptum er að varpa ljósi á þá hugmyndafræði sem býr að baki réttindamiðaðri nálgun að þróun. Leitað er svara við spurningum á borð við hvað réttindamiðuð nálgun að þróun sé og hvort hún geti mögulega staðið undir þeim markmiðum sem margir telja að hún geti komið til leiðar, eins og til dæmis að þróunarsamvinna verði óþörf. Rannsóknin byggir á eigindlegri aðferðafræði en slíkar rannsóknir fela m.a. í sér að safnað er fjölbreyttum gögnum sem rannsakandinn síðan túlkar. Tekin voru viðtöl og þátttökuathuganir framkvæmdar, auk textagreiningar samkvæmt þessari aðferðafræði. Í því augnamiði að auka skilning á upplifun starfsfólks alþjóðlegra stofnanna sem notast við réttindamiðað nálgun, og að vissu leiti hvernig nálgunin virkar í framkvæmd, var sjónum fyrst of fremst beint að Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna og Barnaheillum á Íslandi.
Það er niðurstaða rannsóknarinnar að víða er pottur brotinn þegar kemur að réttindamiðaðri nálgun að þróun. Talsmenn þessarar nálgunar þurfa að sýna fram á að nálgunin sé meira en uppskrúfuð orðræða sem býður ekki uppá raunverulegar lausnir á þeim vandamálum sem fólk í þróunarríkjum stendur frammi fyrir. Réttindamiðuð nálgun að þróun þarf að vera þannig úr garði gerð að þeir sem starfa innan þróunargeirans þurfi ekki að vera mannréttindalögfræðingar, doktorar í þróunarfræðum eða bera sambærilega titla til að taka þátt í og njóta þess sem nálgunin hefur uppá að bjóða. Réttindamiðuð nálgun að þróun stendur einnig frammi fyrir flóknum siðferðilegum og réttarfarslegum spurningum. Þrátt fyrir allt er það þó skoðun rannsakandans að takist talsmönnum nálgunarinnar að bæta ákveðinn vanda sem nálgunin stendur frammi fyrir þá sé hún sannarlega komin til að vera og hefur alla burði til að vera boðberi vonar og jákvæðra breytinga á þróunarferlinu.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Gudrun_Birna_Johannsdottir_fixed.pdf | 667.4 kB | Opinn | Meginmál | Skoða/Opna |