is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/3408

Titill: 
 • Ristilkrabbamein á Íslandi 1955-2004. Meinafræðileg og faraldsfræðileg rannsókn
Námsstig: 
 • Meistara
Útdráttur: 
 • Markmið: Krabbamein í ristli er verulega alvarlegt heilsufarsvandamál á Vesturlöndum og er nú þriðja algengasta krabbamein karla á Íslandi og fjórða
  algengasta krabbameinið meðal kvenna. Krabbameinsskrá Krabbameinsfélags Íslands hefur upplýsingar um nýgengi sjúkdómsins í meira en hálfa öld. Þeim
  upplýsingum hefur verið safnað saman á löngum tíma en ýmsar breytingar hafa átt sér stað varðandi skilgreiningar og mat á sjúkdómnum, t.d. hvað varðar meðhöndlun
  vefjasýna í meinafræðirannsókn og því hvað nauðsynlegt telst að taka fram í
  meinafræðisvörum. Markmið þessa verkefnis er að kanna í lýðgrundaðri rannsókn
  hjá heilli þjóð nýgengi og meinafræði ristilkrabbameins á hálfrar aldar tímabili
  (1955-2004) með því að endurmeta með samhæfðri aðferð meinafræðiþætti með
  endurmati allra vefjasýna og meinafræðiniðurstaða. Áhersla rannsóknarinnar er á
  breytingu ýmissa þátta á tímabilinu, þá sérstaklega sjúkdómsstigs, og mögulegan
  mun á birtingarmynd sjúkdómsins milli kynja, aldurshópa, staðsetningar æxlisvaxtar
  innan ristilsins og stigs sjúkdóms. Enn fremur er markmið rannsóknarinnar að skapa
  vel skilgreindar upplýsingar um ristilkrabbamein sem gætu nýst við mat á árangri skimunar fyrir ristilkrabbameini í framtíðinni ef slíkri skimun verður hrundið af stað á Íslandi.
  Efniviður og aðferðir: Upplýsingar fengust frá Krabbameinsskrá KÍ um alla þá er
  greindust með krabbamein í ristli á tímabilinu 1955-2004, eða á 50 ára tímabili. Öll
  vefjasvör og krufningaskýrslur voru yfirfarin. Öll vefjasýni voru endurskoðuð og
  meinin metin með tilliti til stærðar æxlis, stórsæs útlits, hringvaxtar, vefjagerðar,
  gráðu, gerðar æxlisjaðars, eitilfrumuíferðar við æxlisjaðar, íferðardýptar æxlis,
  æðaíferðar, fjölda rannsakaðra eitla, fjölda jákvæðra eitla, fjarmeinvarpa,
  æxlisvaxtar í hliðarskurðbrún vefjasýnis og stigunar (Dukes-Turnbull, TNM og
  Jass). Ennfremur var greiningardagur skráður, sem og kyn, aldur við greiningu,
  staðsetning innan ristils og grundvöllur greiningar. Aldursstaðlað nýgengi miðað við
  6
  heimsstaðal var reiknað fyrir bæði kyn. Dreifing meinafræðilegra þátta var athuguð
  m.t.t. kyns, aldurshópa, staðsetningar í ristli og stigs og marktæki mismunar á
  hlutföllum og meðaltali einstakra kannaðra þátta athugað. Tímabreyting var skoðuð
  með línulegri aðhvarfsgreiningu fyrir tímabilið 1970-2004.
  Niðurstöður: Alls voru eftir endurmat vefjasýna og upplýsinga af vefjasvörum og
  krufningaskýrslum 2293 æxli sem uppfylltu skilmerki þess að teljast
  ristilkrabbamein, 1148 af þeim í körlum og 1145 í konum. Nýgengi jókst á
  rannsóknartímabilinu hjá körlum úr 7,5 í 22,2/105 og hjá konum úr 8,6 í 15,1/105.
  Flest æxlin voru staðsett í bugaristli (35%) en þar á eftir voru æxli í botnristli (20%)
  og risristli (15%). Í 93% tilvika voru vefjasýni með vefjaglerjum til reiðu til
  endurskoðunar og endurmats. Hefðbundin kirtilkrabbamein voru 84% allra æxlanna,
  en slímkirtilkrabbamein voru 7%. Dukes-Turnbull-flokkun æxlanna sýndi að 7%
  voru á stigi A, 32% á stigi B, 24% á stigi C, 21% á stigi D og stig var óþekkt í 16%
  tilvika. Óverulegur munur var á dreifingu stiga m.t.t. kynja og aldursflokka en
  munur var m.t.t. staðsetningar æxla innan hægri og vinstri hluta ristils með þeim
  hætti að stig A kom oftar fyrir vinstra megin en stig D hægra megin. Hlutfall tilfella
  á stigi A jókst um 1,6% fyrir hver 5 ár á tímabilinu 1970-2004. Staðsetning æxlanna
  innan ristils breyttist ekki marktækt á tímabilinu.
  Ályktun: Meinafræðileg birtingarmynd ristilkrabbameina á Íslandi er svipuð því
  sem lýst hefur verið erlendis. Lítill munur er á kynjum og aldurshópum m.t.t.
  dreifingar einstakra meinafræðiþátta en allnokkur munur kom fram hvað varðar
  sjúkdómsstig og staðsetningu æxlisvaxtar í ristli. Sérstaka athygli vekur lítil aukning
  tilfella á Dukes-Turnbull stigi A (TNM-stigi I). Aukalega sýnir þessi lýðgrundaða
  rannsókn hversu vandasamt er að meta tímabreytingar á stigun ristilkrabbameina
  vegna hættu á valskekkju og upplýsingaskekkju. Þessi rannsókn hefur skapað mjög
  heildstæðan og góðan grunn ristilkrabbameina hjá heilli þjóð yfir hálfa öld og mjög
  áhugavert er að nýta þennan grunn til athugunar á tengslum einstakra þátta, einkum
  meinafræðiþátta, við horfur sjúklinga.

Samþykkt: 
 • 11.10.2008
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/3408


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Petur_Snaebjornsson_fixed.pdf1.94 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna