Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/34272
Í lokaverkefni þessu verður gerð úttekt á baráttunni gegn þeirri háttsemi sem nefnd hefur verið kennitöluflakk og vísar til misnotkunar á félagaforminu. Leitað verður svara við því hvernig breyttar áherslur Hæstaréttar við sakarmat fyrirsvarsmanna félaga með takmarkaða ábyrgð falli að þeirri baráttu og hvernig löggjafinn hyggist bregðast við því. Hæstiréttur hefur horfið frá því sakarmati að lögformleg skráning um fyrirsvar fyrir félag með takmarkaða ábyrgð ráði úrslitum um athafnaskyldur og litið til þess hver hafði raunverulega stjórn fjármuna á sinni hendi fyrir hönd félagsins. Farið verður yfir gildandi lög sem miða að því að koma í veg fyrir misnotkun á félagaforminu og lögskýringargögn ítarlega skoðuð með tilliti til vilja löggjafans. Þá verða skoðaðar fyrirhugaðar breytingar á lögum og rýnt í mikilvægar skýrslur um viðfangsefnið. Sérstaklega verður rýnt í það hvernig fyrirhugaðar lagabreytingar samræmast úrlausnum dómstóla.
Niðurstaða höfundar var sú að þrátt fyrir margar góðar hugmyndir til þess að koma í veg fyrir kennitöluflakk, svo sem fyrirhugaðar lagabreytingar um þrengri hæfisskilyrði stofnenda og fyrirsvarsmanna, leiðir það af fordæmum að lögboðin réttindi og skyldur fyrirsvarsmanna félaga með takmarkaða ábyrgð eru rofin. Lagabreytingar sem miða að því að þrengja hæfi stofnenda og fyrirsvarsmanna sem og leggja tímabundið bann við því að standa að atvinnurekstri í kjölfar brotastarfsemi í atvinnurekstri er byggð á eldri grunni sambærilegra hugmynda. Skattsvik hafa verið litin hornauga af samfélaginu svo áratugum skiptir og ítrekað hefur verið farið í lagabreytingar með það að markmiði að sækja menn til ábyrgðar fyrir slík brot. Mikil framför er að mati höfundar fólgin í því að hæfisreglur prókúruhafa verði settar, enda mikil réttindi til þess að sýsla með fjármuni félags fólgin í slíku umboði. Þær breyttu áherslur dómstóla undanfarinna ára í þá veru að hverfa frá því að skráning um fyrirsvar sé formregla leiðir til þess að skráning um fyrirsvar er þýðingalaus hvað athafnaskyldur varðar. Verður það til þess að þrengri reglur hafa ekki tilætluð áhrif enda getur hver sem skráir sig af greiðvikni fyrir stofnun eða í fyrirsvar vænst þess að vera laus við þá ábyrgð sem skráningu þar um ætti annars að fylgja. Um mikla afturför í baráttunni við misnotkun á félagaforminu er því að ræða enda þarf sá sem stunda vill háttsemina kennitöluflakk með kerfisbundnum hætti hvorki að skrá sig með lögformlegum hætti né sæta sérstaklega þungum refsingum fyrir að játa háttsemina sökum plássleysis í fangelsum.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
RósalindGuðmundsdóttir_bs.pdf | 549,61 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |