Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/3436
Hlýnandi loftslag undanfarinna ára hefur valdið breytingum á útbreiðslu
fiskitegunda á norðurhveli jarðar. Ólík svörun tegunda við hækkandi hita getur leitt
til breytinga á samfélagsgerð og staðbundnum tegundafjölda. Í kjölfar breytinga á
sjávarhita hafa verið skráðar breytingar á stofnstærð og útbreiðslu nokkurra
fiskitegunda á Íslandsmiðum. Markmið þessarar rannsóknar voru að kanna
breytingar á útbreiðslu, fjölbreytileika og samfélagsgerð botnfiska á Íslandsmiðum á
hlýnunarskeiði og hvaða umhverfisþættir ráða þeim.
Í rannsókninni voru notuð gögn Hafrannsóknastofnunarinnar úr árlegum (1996-
2007) stofnmælingum botnfiska að hausti (október). Í stofnmælingunni eru sömu
stöðvar endurteknar ár hvert. Klasagreining (hierarchical cluster analysis) var notuð
til að skilgreina samfélög fiska á tveimur tímabilum og fjölþáttagreiningin CCA
(canonical correspondence analysis) til að kanna tengsl milli samfélaga og hitastigs,
dýpis, breiddar- og lengdargráðu og ára. Einnig voru notaðir tveir
fjölbreytileikastuðlar; fjöldi tegunda og Shannon index. Tengsl fjölbreytileika og
hitastigs, dýpis, frumframleiðslu, staðsetningar og ára voru könnuð með GAM
líkönum (generalized additive models).
Fjögur meginsamfélög með útbreiðslu í suðvestur-djúpi, norður-djúpi, suður
landgrunni og með víða útbreiðslu á landgrunni voru greind með klasagreiningu.
Samfélög í köldum sjó djúpt norður af landinu voru óbreytt á rannsóknartímanum, en
samfélagsgerð tegunda í breytilegri hlýsjó yfir landgrunninu sýndu meiri breytingar á
sama tímabili. Fjölþáttagreining sýndi líka fram á aukið vægi hlýsjávartegunda á
þessu hlýnunarskeiði. Í ljós kom að fjölbreytileiki var mismunandi eftir árum og
staðsetningu, auk þess sem hann breyttist með dýpi og hitastigi. Tegundafjöldi jókst
með hitastigi og tíma suður og vestur af landinu, en minnkaði fyrir norðan og austan
land. Á sumum svæðum þar sem fjöldi tegunda var mikill var Shannon index lágur.
Þetta gefur til kynna að þrátt fyrir að margar tegundir séu á þessum svæðum, þá er
einstaklingsfjöldi flestra þeirra lítill.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Lilja_Stefansdottir_fixed.pdf | 4.61 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |