is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Hugvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Hugvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/34378

Titill: 
  • Inn í hvern krók og kima. Um rými í Ameríku eftir Franz Kafka
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Í þessari ritgerð er sjónum beint að rýminu í frásagnarheimi Franz Kafka, með það að markmiði að varpa ljósi á margvísleg einkenni þeirra fjölmörgu rýma sem finna má í verkum höfundarins, og er lögð sérstök áhersla á skáldsöguna Ameríku. Hún var fyrsta skáldsaga hans, en hann lauk raunar aldrei við hana fremur en hinar tvær, Réttarhöldin og Höllina. Allar voru þær gefnar út að höfundi látnum, settar saman úr stökum köflum og brotum er hann geymdi í handritum sem hann bað raunar um að yrðu brennd.
    Meginviðfangsefni ritgerðarinnar er bókmenntagreining og rannsókn á rýmum sem finna má í Ameríku, en þó verður einkum rýnt í fyrstu kafla hennar hér, til að draga sem skýrast fram hvernig Kafka skapar og vinnur með rýmin í sagnaheimi sínum. Einnig verður fjallað um eðli rýmisins, hlutverk þess og virkni í merkingarsköpun frásagnar. Helst er byggt á kenningum franska fyrirbærafræðingsins Gastons Bachelard sem birtast í Skáldskaparfræði rýmisins og Josephs Frank um rúmlægt form sem eitt megineinkenna nútímabókmennta ásamt hugmyndum Michels de Certeau og Georgs Simmel um stórborgina og borgarrýmið. Þar að auki verður unnið með kenningar Michels Foucault um heterótópíuna sem og fræga ritgerð Walters Benjamin um Kafka.
    Greiningaraðferðir eru margvíslegar en áhersla er sem fyrr segir einkum lögð á rýmið í skáldsögunni Ameríku. Frásagnarheimur Kafka, heimur sem rúmar í senn skáldsögur hans, smásögur sem og annars konar ritverk, býr víða yfir sterkum rúmlægum eigindum og er fjarri því að vera alfarið bundinn lögmálum tímans og línulegri atburðarás sem drifkrafti frásagnar. Rými er náttúrulega vítt hugtak og þjónar vel sem vettvangur greiningar á skáldsögum Franz Kafka. Horft er til þess hvernig rýmið tengir staðarmyndir frásagnar við vitund og skynjun sögupersóna; hvernig skynjunin rennur saman við rýmið í sögunni og miðlun veruleikans. Þá verður velt upp spurningum um mismunandi samband frásagna (ekki síst innri sagna í skáldsögunni), hugarheima og ytri veruleika, og skyggnst eftir dýnamískum tengslum þeirra og flöktandi skilrúmum. Að vissu leyti verður lagt af stað í ferðalag um Ameríku Franz Kafka – sem sjálf er ferðasaga söguhetjunnar og ekki síður ferð lesandans út í óvissuna. Markmiðið er að varpa ljósi á það hvernig slíkt ferðalag inn í skáldverk mótast sífellt af áherslu höfundarins á rýmið.
    En þó að frásagnarheimur Kafka sé bundinn rými, og Ameríka sé linnulaust flandur, röð innilokunar og útilokunar, frá einu rými til annars, á höfundurinn vissulega til að rjúfa þau bönd og splundra hefðbundnum rýmishugmyndum.

Samþykkt: 
  • 6.9.2019
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/34378


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
MA.Ritgerd.Arnor.Ingi.Hjartarson.pdf559,39 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
[Untitled].pdf244,71 kBLokaðurYfirlýsingPDF