Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/34423
Í þessari ritgerð er fjallað um „villta vinstrið“ svokallaða á Íslandi og afstöðu þess til kvennabaráttu á Íslandi á árunum 1975-1985. Fjallað verður um þrjú samtök, annars vegar Einingarsamtök kommúnista (marx-lenínistar) (EIK m-l), Kommunistasamtökin marxistarnir-lenínistarnir (KSML) og Fylkinguna. Auk þess verður fjallað um Rauðsokkahreyfinguna en hún spilaði stórt hlutverk í kvennabaráttu samtakanna þriggja. Ritgerðin skiptist í fimm kafla ásamt inngangi og niðurstöðum. Í fyrsta kafla er fjallað um samband marxisma og femínisma, og stuttlega gert grein fyrir félagslegri stöðu kvenna á áttunda áratugnum. Í öðrum kafla er fjallað um tilurð villta vinstrisins á Íslandi. Í þriðja kafla er fjallað um almenna stefnu villta vinstrisins í kvennabaráttunni og gagnrýni þeirra á Rauðsokkahreyfinguna. Í fjórða kafla er fjallað um nokkra stiklusteina í kvennabaráttu samtakanna: baráttu þeirra gegn borgaralegum femínisma, afstöðu þeirra til móðurhlutverksins og 8. mars hreyfinguna. Í fimmta kafla er fjallað um tímabilið 1980-1985 en tímabilið hófst með uppgjöri hjá villta vinstrinu og kaflaskilum í íslenskri kvennabaráttu en lauk með endalokum villta vinstrisins. Markmiðið með ritgerðinni er að skoða afstöðu vinstri hreyfingana EIK m-l, KSML og Fylkingarinnar til kvennabaráttu á Íslandi með hliðsjón af gagnrýni þeirra á Rauðsokkahreyfinguna. Sjónum verður helst beint að EIK m-l en mesta gagnrýnin kom frá þeim, auk þess sem Rauðsokkahreyfingin brást hvað mest við gagnrýni þeirra. Leitað verður svara við spurningum á borð við hvaða hugmyndafræði mótaði afstöðu þeirra og að sama skapi hvaða atburðir gætu hafa mótað þá afstöðu? Hvers vegna var gagnrýnin á Rauðsokkahreyfinguna, helstu kvennahreyfinguna hér á landi, svona mikil og á hverju var hún byggð?
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Atli Sig - BA.pdf | 478.94 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
2019-09-10 23-10.pdf | 71.64 kB | Lokaður | Yfirlýsing |