is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/34433

Titill: 
 • Áhrif örorkubyrði og jöfnunargreiðslna á afkomu lífeyrissjóða á Íslandi
Námsstig: 
 • Meistara
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
 • Markmið þessarar ritgerðar er að skoða og bera saman örorkubyrði starfandi lífeyrissjóða á Íslandi og jafnframt kanna hvort árlegar jöfnunargreiðslur frá ríkinu til jöfnunar örorkubyrði lífeyrissjóðanna séu að skila tilætluðum árangri. Tilgangur jöfnunargreiðslna frá íslenska ríkinu er að koma til móts við mismikla örorkubyrði lífeyrissjóða á Íslandi og skapa þannig jöfnuð á milli þeirra hvað örorkubyrði varðar.
  Örorkubyrði íslenskra lífeyrissjóða er mismikil og vilja stjórnendur ýmissa lífeyrissjóða halda því fram að staða sumra sjóðanna sé töluvert verri en annarra þrátt fyrir jöfnunargreiðslur frá ríkinu. Þá er því jafnframt haldið fram að mikil örorkubyrði lífeyrissjóða hafi neikvæð áhrif á getu þeirra til að greiða ellilífeyri til lífeyrissjóðfélaga og þar af leiðandi neikvæð áhrif á fjárhagslega stöðu og afkomu sjóðfélaga. Þessi óréttláta skipting örorkubyrði milli lífeyrissjóðanna leiði til þess að sjóðfélagar sumra sjóða séu fjárhagslega verr staddir en aðrir þegar komið er á ellilífeyrisaldurinn.
  Í þessu verkefni er reynt að svara tveimur rannsóknarspurningum:
  1. Er framlag ríkisins til að jafna stöðu lífeyrissjóða vegna mismunandi örorkubyrði að skila tilætluðum árangri og þannig úr garði gert að jafnræði ríki á milli lífeyrissjóða?
  2. Hver eru áhrif mismunandi örorkubyrði lífeyrissjóða á afkomu lífeyrissjóðfélaga?
  Þá eru einnig borin saman tryggingafræðileg staða lífeyrissjóða og lífeyrisréttindi sem þeir bjóða sjóðfélögum sínum. Að lokum eru niðurstöður bornar saman við niðurstöður fyrri rannsókna.
  Helstu niðurstöður rannsókna eru þær að örorkubyrði sumra lífeyrissjóða er töluvert þyngri en annarra auk þess sem jöfnunargreiðslur frá ríkissjóði ná ekki að jafna örorkubyrði lífeyrissjóða. Örorkubyrði allra lífeyrissjóða lækkar við jöfnunargreiðslur en jafnast hins vegar ekki út á milli sjóða auk þess sem hlutfallsleg lækkun á örorkubyrði er mismikil milli lífeyrissjóða. Örorkubyrði margra betur settra lífeyrissjóða lækkar hlutfallslega meira en örorkubyrði lífeyrissjóða sem eru verr settir. Þá eru sjóðfélagar lífeyrissjóða með þunga örorkubyrði verr settir en aðrir þegar kemur að myndun eigna til lífeyris yfir starfsævina og getur örorkubyrðin ein og sér kostað sjóðfélaga allt að tvö prósent af eignum sínum. Þá eru lífeyrisréttindi hjá þeim lífeyrissjóðum sem mælast með mikla örorkubyrði og lægri eignamyndun einnig minni og tryggingafræðileg staða þeirra að sama skapi ekki góð. Athygli vekur þó að sumir lífeyrissjóðir með neikvæða tryggingafræðilega stöðu bjóða hærri lífeyrisréttindi en aðrir sjóðir sem standa mun betur tryggingafræðilega séð.

Samþykkt: 
 • 12.9.2019
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/34433


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
20190912 MB-MS.pdf781.53 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Markús Benediktsson - Yfirlýsing um meðferð lokaverkefnis.pdf287.48 kBLokaðurYfirlýsingPDF