Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/34443
Í þessari 40 eininga meistararitgerð í þjóðfræði er leitast við að veita innsýn í birtingarmyndir dverga sem sagnapersóna í rituðum og munnlegum sagnaheimildum á Íslandi. Rannsóknin er í grunninn þjóðfræðileg textagreining á sögum og sögnum sem innihalda sagnaminni um dverga og verða helstu íslensk þjóðsagnasöfn 19. og 20. aldar tekin til greiningar með hliðsjón af eldri heimildum svo sem miðaldabókmenntum og 17.- og 18. aldar ævintýrum.
Hluti þessarar rannsóknar byggir á eigindlegum viðtölum sem voru tekin haustið 2018 við þrjá einstaklinga sem þekkja til munnlegra sagna um dverga í einhverri mynd. Í tveimur viðtölum komu fram stuttar sagnir sem tengjast landslaginu órjúfanlegum böndum og í báðum þessara sagna var talað um dverg -eða dverga- í þeirri merkingu að hann hafi verið yfirnáttúruleg vættur. Í þriðja viðtalinu kom fram flökkusögn sem var ekki bundin við tiltekin stað á sama hátt og áðurgreindu sagnirnar voru. Í þeirri sögn var orðið „dvergur“ notað yfir dvergvaxinn mann sem virtist ekki búa yfir yfirnáttúrulegum hæfileika eða eiginleika.
Við greiningu sagnanna er reynt að varpa ljósi á þróun dvergahugtaksins í tímans rás. Því er greint frá þróun stakra sagnaminna og hugmynda og er tekið sérstakt tillit til útlits og hæfileika dverga, auk stöðu þeirra gagnvart öðrum þjóðsagnavættum. Í lokin er leitast við að beina sjónum að landfræðilegri dreifingu íslenskra dvergasagna í því skyni að draga ályktanir um hvort svæðisbundin dvergsagnahefð hafi verið til á afskekktum stöðum svo sem við Álftafjörð í Ísafjarðardjúpi.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
YfirlýsingUmMeðferðLokaverkefnis.pdf | 21.13 kB | Lokaður | Yfirlýsing | ||
MAritgerðSkemman.pdf | 1.01 MB | Lokaður til...01.01.2040 | Heildartexti |