is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/34537

Titill: 
  • Algengi og alvarleiki einkenna frá öxl meðal fyrrum afreksmanna í handknattleik borið saman við samanburðarhóp
Námsstig: 
  • Meistara
Efnisorð: 
Útdráttur: 
  • Inngangur: Íslensk rannsókn hefur sýnt háa tíðni álagseinkenna í öxlum handknattleiksmanna í efstu deildum. Lítið er um rannsóknir á fyrrverandi leikmönnum í handknattleik. Engar rannsóknir hafa verið birtar á Íslandi um einkenni frá öxlum fyrrverandi afreksíþróttamanna í handknattleik og engar hafa kannað hvort þeir séu útsettari fyrir snemmkomnum slitbreytingum í liðum miðað við almenning.
    Markmið: Að meta algengi og alvarleika einkenna frá öxl meðal fyrrverandi afreksíþróttamanna í handknattleik og bera saman við karlmenn á sama aldri sem ekki hafa stundað afreksíþróttir.
    Efniviður og aðferðir: Þátttakendur voru 174 karlmenn á aldrinum 40-79 ára. Í rannsóknarhópi voru 84 fyrrverandi handknattleiksmenn sem leikið höfðu með íslenska landsliðinu í handknattleik. Í samanburðarhópi voru 85 karlmenn sem höfðu ekki stundað afreksíþróttir. Rannsóknin var afturskyggn þversniðsrannsókn. Þátttakendur svöruðu spurningalista um helstu bakgrunnsupplýsingar og einnig OSTRC spurningalista sem mat alvarleika axlareinkenna og áhrif þeirra á frammistöðu og þátttöku í hreyfingu.
    Niðurstöður: Algengi axlareinkenna hjá rannsóknarhópi var 35,7% og 27,0% hjá samanburðarhópi en ekki var marktækur munur á milli hópanna (p = 0,12). Meðaltal alvarleikastiga í heildina var 13 hjá rannsóknarhópi og 7 hjá samanburðarhópi og marktækur munur var á milli hópa (p = 0,02). Algengi alvarlegra axlareinkenna var 19% í rannsóknarhópi en 8,2% í samanburðarhópi. Marktækt fleiri fyrrum handknattleiksmenn voru með sögu um meiðsli í öxl (p = 0,0005), höfðu einhvern tímann þurft að fara í aðgerð (p < 0,0001) eða þurft á sjúkraþjálfun að halda (p < 0,0001) miðað við samanburðarhóp.
    Ályktun: Algengi axlareinkenna var ekki marktækt hærra hjá fyrrum handknattleiksmönnum. Þeir virðast þó vera með marktækt alvarlegri einkenni miðað við samanburðarhóp. Ekki var hægt að segja til um eðli einkenna hjá þátttakendum og hvort um væri að ræða snemmkomnar slitbreytingar í öxl. Þörf er á fleiri rannsóknum sem skoða stoðkerfiseinkenni fyrrverandi afreksmanna í handknattleik til að styðja við niðurstöður þessarar rannsóknar.

Samþykkt: 
  • 28.10.2019
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/34537


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Jóhanna Björk Viktorsdóttir_Meistararitgerð_2019.pdf772.88 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Yfirlýsing skemman_undirr.pdf237.22 kBLokaðurYfirlýsingPDF