is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Hugvísindasvið > B.A. verkefni - Hugvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/34651

Titill: 
 • Geðlæknisfræði í Rússlandi og Bandaríkjum Norður-Ameríku fram á miðja 20. öld. Samanburður að gefnu tilefni.
Námsstig: 
 • Bakkalár
Leiðbeinandi: 
Efnisorð: 
Útdráttur: 
 • Á síðari hluta tuttugustu aldar voru stjórnvöld í Sovétríkjunum gagnrýnd á Vesturlöndum fyrir misbeitingu geðlæknisfræðinnar í pólitískum tilgangi. Ekki er farið náið í það hér, heldur er málið tilefni til að átta sig á því, hvort saga geðlæknisfræði í Rússneska keisaradæminu og síðar í Sovétríkjunum skýri hvers vegna þessi varð þróun mála. Í þeim tilgangi er farið yfir sögu geðlæknisfræðinnar almennt, en Rússland og Bandaríki Norður–Ameríku sérstaklega borin saman. Einnig er rússnesk kennslubók í geðlæknisfræði frá árinu 1965 borin saman við bandaríska kennslubók í sama fagi frá svipuðum tíma.
  Niðurstöðurnar eru, að ekkert í sögu rússneskrar geðlæknisfræði gerði hana líklegri til misnotkunar en geðlæknisfræði í Bandaríkjunum. Í raun er margt líkt með þessum ríkjum, hvað söguna varðar. Ungir læknar beggja þjóða héldu til Vestur-Evrópu til framhaldsnáms, og eftir heimkomuna hófu þeir að byggja upp læknisþjónustu, hver á sínu sviði. Uppbygging geðlæknisþjónustu var seinna á ferðinni í Rússlandi og í Sovétríkjunum en í Bandaríkjunum. Í Rússlandi var geðlæknisfræði undir þýskum áhrifum, og geðlækningar voru stundaðar á geðveikrahælum og á geðdeildum almennra sjúkrahúsa. Geðlækningar og taugalækningar voru þar ein sérgrein. Tengsl við almenna læknisfræði voru því náin, og hallast var að vefrænum orsakaskýringum og taugalífeðlisfræðilegum kenningum Ívans Pavlovs um skilyrt og óskilyrt viðbrögð.
  Í Bandaríkjunum var uppbyggingin líkari því sem gerðist í Frakklandi og Englandi. Geðlækningar og taugalækningar voru aðskildar sérgreinar. Geðlæknisþjónustan var rekin á stórum geðveikrahælum, sem höfðu með sér náið samstarf. Þetta olli einangrun geðlækna frá kollegum sínum í almennri læknisfræði. Eftir seinni heimsstyrjöld varð breyting á þessu. Geðlæknar fóru að sinna taugaveiklunarsjúklingum, sem taugalæknar höfðu stundað áður. Geðdeildir voru stofnaðar við almenn sjúkrahús, og fagið tengdist á ný almennri læknisfræði. Kenningum Sigmunds Freuds var vel tekið af kollegum hans, taugalæknum, og seinna engu síður af geðlæknum, einkum eftir heimsstyrjöldina fyrri. Sálkönnun byggir á tíðum viðtölum sjúklings og sálkönnuðarins og er dýr læknismeðferð. Klassísk sálkönnun er best fallin fyrir kapítalískt þjóðfélag með fjölmenna og efnaða millistétt.
  Kennslubækurnar tvær endurspegla þessa sögu og þann raunveruleika, sem geðlæknar í Sovétríkjunum og Bandaríkjunum stóðu frammi fyrir í starfi á þeim tíma, þegar bækurnar voru samdar. Í rússnesku kennslubókinni fá vefrænir geðsjúkdómar meira rými en í þeirri bandarísku, sem aftur á móti hefur meira um taugaveiklun að segja. Líta má svo á, að ítarleg umfjöllun bandarísku bókarinnar um taugaveiklun endurspegli velmegunarvanda þróaðs kapítalísks þjóðfélags, en að rússneska bókin lýsi glímu fátækara samfélags við geðrofssjúkdóma og vefræna geðsjúkdóma.
  Í bandarísku kennslubókinni eru kenningar Freuds notaðar bæði til orsakaskýringa og til meðferðarráðlegginga. Rússneska kennslubókin hafnar hughyggju Freuds, en styðst við efnishyggju Ívans Pavlovs í sínum skýringum og ráðleggingum. Pavlovskar kenningar féllu vel að díalektískri efnishyggju marxismans, og þær voru gerðar að opinberri stefnu Kommúnistaflokks Sovétríkjanna, hvað „efniseðli“ hugans varðar. Áhrif flokksins voru víðtæk á öllum sviðum þjóðlífsins og náðu til sovéskra geðlækna, sem sáu sér ekki annað fært en að réttlæta pólitískar handtökur á geðlæknisfræðilegum grundvelli, ef þess var krafist.
  Árið 1965 hófst bein þátttaka Bandaríkjanna í Víetnam-stríðinu. Afstaða geðlækna hersins til yfirbugaðra bandarískra hermanna hefur verið gagnrýnd. Líkt og kollegar þeirra í Sovétríkjunum gengu þeir valdinu á hönd. Þeirra megin meðferðarmarkmið var að koma hermönnum aftur í það hugarástand, að þeir gætu barist áfram í siðlausu stríði.
  Misnotkun geðlæknisfræðinnar í þágu valdsins viðgengst um allan heim, í lýðræðis- og einræðisríkjum. Geðlæknisfræði býður upp á misnotkun, hvar sem er eðlis síns vegna, en varla eða alls ekki er rætt um þetta í kennslubókum í geðlæknisfræði. Kennslubækurnar tvær, sem hér eru til umfjöllunar, minnast ekki á þennan vanda. Þótt ekki sé víst, að slík umræða í kennslubókum geri geðlækna hæfari til að takast á við siðferðilegar aðstæður í starfi sínu, mundi hún vera áminning um, að hér er vandamál, sem alla varðar.

Samþykkt: 
 • 3.1.2020
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/34651


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Skemman_BA ritgerð.pdf734.76 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Skemman_yfirlysing.pdf293.99 kBLokaðurYfirlýsingPDF