is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/34652

Titill: 
 • Að bera nafn með rentu. Hugtakið raunverulegt eignarhald í frumvarpi til laga um breytingu á CFC-reglum laga nr. 90/2003 um tekjuskatt
Námsstig: 
 • Meistara
Útdráttur: 
 • Raunveruleikinn er síbreytilegur og það sama á við um hugtakið raunverulegt eignarhald sem tekur á sig ýmsar myndir, allt eftir aðstæðum hverju sinni. Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna skattlagningar tekna erlendra lögaðila í lágskattaríkjum o.fl., nánar tiltekið um breytingu á gildandi CFC-reglum. Núgildandi CFC-reglur má finna í 57. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og er þeim ætlað að koma í veg fyrir skattasniðgöngu og skapa varnaðaráhrif, sér í lagi í tengslum við skattaflótta þar sem innlendir skattaðilar færa tekjur og arðberandi eignir til erlendra aðila í lágskattaríkjum með það að markmiði að lágmarka skattgreiðslur sínar. Markmið CFC-reglna frumvarpsins er í grunninn hið sama en engu að síður hefur frumvarpið að geyma nokkrar eftirtektarverðar nýjungar.
  Sú nýjung sem er í forgrunni þessarar umfjöllunar er hugtakið raunverulegt eignarhald en í frumvarpinu kemur fram að greiða skuli skatt af tekjum CFC-félags í samræmi við raunverulegt eignarhald skattaðila í félaginu. Hugtakið er, enn sem komið er, ekki að finna í íslenskri skattalöggjöf og því nauðsynlegt að skýra það til hlítar. Hugtakið er þó ekki nýtt af nálinni í skattarétti en það kemur fyrir í fjölmörgum tvísköttunarsamningum, einstaka Evróputilskipunum auk þess sem það má finna á öðrum sviðum íslensks réttar svo sem í lögum nr. 140/2018 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Í umfjölluninni er gerð grein fyrir merkingum hugtaksins á þessum ólíku sviðum og kannað hvort einhverri þeirra megi jafna við hugtak frumvarpsins. Einnig er litið er til nágrannalanda Íslands, hvoru tveggja til dómaframkvæmdar í tengslum við raunverulegt eignarhald sem og CFC-reglna þeirra í því skyni að varpa frekara ljósi á merkingu hins íslenska hugtaks.
  BEPS-aðgerðaáætlunin og ATAD-tilskipunin koma einnig við sögu þar sem hugtakið raunverulegt eignarhald er í raun fengið úr fyrrnefndri aðgerðaáætlun. CFC-reglur aðgerðaáætlunarinnar og tilskipunarinnar eru, eftir því sem við á, bornar saman við CFC-reglur frumvarpsins, einkum hvað varðar skilyrði skattskyldu og kröfu um tiltekin yfirráð skattaðila. Jafnframt verður greint frá þrenns konar yfirráðum skattaðila yfir CFC-félagi en í ljós kemur að slík yfirráð tengjast hugtakinu raunverulegt eignarhald í frumvarpinu nánum böndum.
  Að lokum er litið til þess hvort hugtakið raunverulegt eignarhald sé skýrt með fullnægjandi hætti í frumvarpinu og greinargerð þess í ljósi þeirra krafna sem 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar setja um skýrleika skattlagningarheimilda.

Samþykkt: 
 • 3.1.2020
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/34652


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
200103 Að bera nafn með rentu.pdf803.47 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
200301 Yfirlýsing SPG.pdf298.55 kBLokaðurYfirlýsingPDF