Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/34672
Reglulega koma upp lagaleg álitamál í þjóðfélaginu, hvort sem það er í málflutningi fyrir dómstólum eða í þjóðfélagslegri umræðu, og hvort sem slík mál snúa að lögskiptum borgaranna sín á milli, gagnvart ríkisvaldinu eða alþjóðlegum skuldbindingum ríkisins. Í deilum um lagaleg efni geta jafnvel hinir færustu lögfræðingar verið ósammála um gildandi rétt, þ.e. þær réttarreglur sem gilda um tiltekið efni, komist að gerólíkum niðurstöðum og hver um sig fært sannfærandi rök fyrir máli sínu. Í slíkum málum snýr ágreiningurinn oftar en ekki að hinni lagalegu aðferð, þ.e. þeirri aðferð sem nota skal til þess að komast að niðurstöðu um gildandi rétt. Í ritgerðinni er m.a. greint frá því hvernig það leiðir af eðli laga sem samfélagslegs fyrirbæris að fullyrðingar um gildandi rétt grundvallast á afstöðu þess sem setur fullyrðinguna fram til þess hvað líta beri á sem lög og hvers vegna. Þannig verði lög ekki útskýrð án tillits til afstöðu manna til hlutverks þeirra eða þýðingar. Í framhaldinu er fjallað um valdar kenningar réttarheimspekinnar sem byggja á mismunandi hugmyndum er lúta að því. Þegar menn deila ekki sömu afstöðu að þessu leyti er greint frá því hvernig lagalegur ágreiningur sé hugmyndafræðilegur. Til þess að skilja lagalegan ágreining og geta tekið rökstudda afstöðu í einstaka málum er því haldið fram að nauðsynlegt sé að vera meðvitaður um mismunandi hugmyndir sem kunna að vera til staðar um hlutverk, tilgang, gildi eða hvað svo sem við kjósum að kalla þær siðferðilegu forsendur sem liggja lögunum til grundvallar. Samantekið má því segja að markmið ritgerðarinnar sé að sýna fram á raunhæft gildi réttarheimspekinnar, en það er m.a. gert með því að fjalla um sjö dóma úr íslenskri réttarframkvæmd og einn dóm EFTA-dómstólsins, sem þóttu henta vel í því skyni.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
SBE (Final).pdf | 922.44 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Scan_sigurbjorne_202002181179_001.pdf | 57.54 kB | Lokaður | Yfirlýsing |