is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/3480

Titill: 
 • Hugtakið flóttamaður og skilyrði hælisveitingar. Íslensk framkvæmd í ljósi alþjóðaskuldbindinga
Námsstig: 
 • Meistara
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
 • Þó að flótti fólks frá heimkynnum sínum hafi þekkst öldum saman á vernd flóttamanna með þeim hætti sem hún er í dag ekki langa sögu. Í þeim tilvikum sem einstaklingar neyðast til þess að yfirgefa heimaland sitt vegna ofsókna er mikilvægt að þeim standi til boða alþjóðleg vernd þar sem hennar nýtur ekki við heima fyrir. Er ákvæðum Flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna ætlað að mæla fyrir um slíka vernd á alþjóðlegum vettvangi.
  Markmið þessa verkefnis voru tvíþætt. Annars vegar að varpa ljósi á það hvaða skilyrði einstaklingar þurfa að uppfylla til þess að teljast flóttamenn og hins vegar að veita innsýn í framkvæmd Útlendingastofnunar í hælismálum á Íslandi. Fjallað var um ákvæði 1. mgr. 14. gr. Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna sem hefur sérstaka þýðingu í þessu sambandi. Einnig var litið til veikleika Flóttamannasamningsins sem meðal annars felast í því að möguleikar til þess að framfylgja ákvæðum hans eru takmarkaðir. Þá voru tengsl alþjóðlegra mannréttindasamninga við málefni flóttamanna og hælisleitenda tekin til sérstakrar skoðunar og það rakið að hvaða leyti ákvæði þeirra eru talin fela í sér vernd þeim til handa.
  Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru þær að skilyrði þess að einstaklingur fái viðurkennda réttarstöðu sína eru skýr en hins vegar getur reynst erfiðleikum háð að sýna fram á að þau séu uppfyllt. Skoðun á ákvörðunum Útlendingastofnunar gefur til kynna að sönnunarbyrði í hælismálum hér á landi er ströng. Er synjun um hæli í flestum tilvikum vegna þess að framburður hælisleitanda er talinn ótrúverðugur. Einnig er algengt að hælisleitandi geti ekki lagt fram gögn máli sínu til stuðnings sem gerir það að verkum að erfitt getur verið fyrir stjórnvöld að afla sér upplýsinga um persónulegar aðstæður hælisleitanda. Gert er ráð fyrir að mál sem varða börn yngri en átján ára fái sérstaka málsmeðferð í samræmi við aðgerðaráætlun um vegalaus börn. Þá benda niðurstöðurnar einnig til þess að Útlendingastofnun geri of miklar kröfur til hælisleitenda með því að átelja það í ákvörðunum sínum að hælisleitandi hafi ekki óskað eftir hæli í fyrsta griðlandi.
  Frá því lög nr. 96/2002 tóku gildi hefur einum flóttamanni verið veitt hæli hér á landi í samræmi við 1. mgr. 44. gr. og 1. mgr. 45. gr. laga nr. 96/2002, um útlendinga, og hefur þremur einstaklingum verið veitt hér hæli á grundvelli fjölskyldusameiningar, sbr. 3. mgr. 46. gr. laganna. Það er hins vegar algengara að hælisleitanda sé veitt hér dvalarleyfi af mannúðarástæðum í samræmi við ákvæði 12. gr. f. útl. Rannsókn einstakra mála hjá stofnuninni virðist vera betri nú en þegar núgildandi lög um útlendinga tóku gildi í byrjun ársins 2003 og eru ákvarðanir hennar betri rökum studdar.

Samþykkt: 
 • 25.8.2009
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/3480


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Hugtakið flóttamaður og skilyrði hælisveitingar_fixed.pdf1.08 MBLokaðurHeildartextiPDF