is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Hugvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Hugvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/34820

Titill: 
  • Tilbrigði í tölusamræmi sagna og tölublendinga í íslensku
Námsstig: 
  • Meistara
Höfundur: 
Útdráttur: 
  • Blendingar (e. hybrid nouns) eru nafnorð þar sem málfræðileg gildi samræmisþátta, svo sem kyn og tala, eru ólík merkingarlegum gildum þeirra; bæði málfræðilega og merking- arlega gildið geta tekið þátt í beygingarsamræmi. Blendingum er skipt í tölublendinga og kynblendinga. Um kynblendinga má nefna nafnorðið vrač ,læknir‘ í rússnesku og læknir í íslensku, þar sem nafnorðið er karlkyns bæði í rússnesku og íslensku, en samt geta ýmsir setningarliðir verið í kvenkyni þegar merkingarmiðið (e. referent) er kona.
    Þekkt dæmi um tölublendinga eru hópheiti (e. collective noun), eða svokölluð „comm- ittee nouns“ í ensku, t.d. committee ,nefnd‘, government ,ríkisstjórn‘, team ,lið‘, family ,fjölskylda‘ o.fl. Sérstaða slíkra orða felst í því að beygingarfræðilega séð eru bæði eintölu- mynd og fleirtölumynd af þessum nafnorðum til, committee – committees, team – teams o.s.frv.; en merkingarmið nafnorðanna samanstendur yfirleitt af fleiri en einum einstaklingi, í þeim skilningi að nefnd eða fjölskylda getur ekki verið byggð á einum einstaklingi. Þessi nafnorð, þegar þau eru notuð í eintölu, hafa málfræðilega tölugildið eintala en geta stundum tekið með sér fleirtölu í umsögn, persónufornafni eða öðrum liðum í setningunni hjá sumum enskum málnotendum, einkum málnotendum frá Bretlandi fremur en t.d. Bandaríkjunum eða Nýja-Sjálandi (Corbett 2015: 5).
    Í Tilbrigðaverkefninu svokallaða (sjá t.d. Guðbjörgu Elínu Ragnarsdóttur 2011: 42–48; Höskuld Þráinsson o.fl. 2015) var m.a. kannað samræmi sagnar með tölunafnorðum á borð við fjöldi, helmingur, meirihluti og stór hluti í íslensku. Rannsóknin bendir til þess að formlegt samræmi, þ.e. að persónubeygð sögn sé í samræmi við höfuð nafnliðanna í persónu og tölu, sé yfirleitt tekið fram yfir ósamræmi, þ.e. samræmi við hlutaeignarfallseinkunn, þótt sumar setningar með tölumisræmi hafi fengið frekar háar einkunnir hjá málhöfum. Í rannsókn Guðbjargar (2011) var eingöngu athugað setningar með tölunafnorðum en ekki með hóheiti; auk þess voru allar prófsetningar með umsögn án sagnfyllingar, þ.e. sagnorð gegna raunverulegu hlutverki umsagnar.
    Meginviðfangsefni þessarar ritgerðar er að kanna tölusamræmi sagna og tölublendinga í íslensku, svo sem tölusamræmi í setningum með hópheitum eins og fjölskylda, par, fólk og tölunafnorðum á borð við helmingur, fjöldi, meirihluti o.fl. Þessi nafnorð voru athug- uð í ólíku setningarumhverfi, svo sem setningum með nafnlegum eða lýsingarlegum sagn- fyllingum, setningum með umsögn án sagnfyllingar, og hvort hjálparsögn sé í setningum. Netkönnun var hönnuð og lögð fyrir til að kanna viðhorf almennings til setningagerða með tölusamræmi og tölumisræmi í íslensku. Markmiðið er að kanna fyrst hvort merkingarlegt tölusamræmi sé raunverulegt tilbrigði í íslensku nútímamáli; auk þess var athugað hvort félagslegir þættir hafi áhrif á viðhorf þátttakenda.

Samþykkt: 
  • 10.1.2020
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/34820


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
MA-ritgerð_Xindan Xu.pdf2.45 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Yfirlýsing_Xindan.pdf504.46 kBLokaðurYfirlýsingPDF