Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/34882
Íslensk og bandarísk stjórnvöld skrifuðu undir varnarsamninginn í maí 1951 en í honum fólst að til landsins kæmi bandarískt varnarlið. Í kjölfarið hófust umtalsverðar framkvæmdir á vegum bandarískra hernaðaryfirvalda. Í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks var vilji fyrir því að íslenskir byggingaraðilar tækju þátt í þeim enda var ljóst að þær yrðu lyftistöng fyrir íslenskt atvinnulíf á tímum atvinnuleysis og innflutningshafta.
Markmið ritgerðarinnar er athuga hvernig staðið var að stofnun Sameinaðra verktaka upp úr miðju ári 1951 en hið nýja fyrirtæki fékk eitt innlendra byggingaraðila rétt á varnarliðsframkvæmdunum. Ríkisstjórnin setti strax fram tvö viðmið um aðgengi að samtökunum: að allir byggingaraðilar ættu að fá aðgang sem höfðu til þess getu og áhuga. Árið 1954 voru Íslenskir aðalverktakar settir á stofn og urðu samtökin helmingseigendur á móti ríkissjóði og Sambandi íslenskra samvinnufélaga. Áhrif þessara breytinga á starfsemi og einkarétt Sameinaðra verktaka eru skoðuð. Þremur árum síðar urðu umskipti í rekstri Sameinaðra verktaka. Samtökin hættu eiginlegri verktöku og voru gerð að eignarhaldsfélagi, fyrst og fremst um eignarhlutann í Íslenskum aðalverktökum. Að auki voru þau gerð að hlutafélagi. Grennslast er fyrir um hvaða áhrif þetta hafði á einkarétt Sameinaðra verktaka á undirverktöku sem félagið hafði áður tryggt sér. Að síðustu er hugað að lokaskeiði Sameinaðra verktaka hf. á árunum 1957-2000 og verðmætustu eign þeirra, Íslenskum aðalverktökum. Í gegnum sögu og breytingaferli Sameinaðra verktaka er ætíð leitað svara við spurningunni: Hvenær lá einkarétturinn á varnarliðsvinnunni hjá samtökunum og hvenær hjá eigendunum sjálfum.
Niðurstaða ritgerðarinnar er að upphafleg viðmið ríkisstjórnarinnar um opið aðgengi að hinum nýju samtökum hafi ekki gengið eftir. Flestir þeirra sem síðar urðu eigendur Sameinaðra verktaka höfðu þegar mætt á undirbúningsfund áður en tilkynning var send til fjölmiðla um að til stæði að stofna slík samtök. Færð eru rök fyrir því að þeir sjö menn sem fyrstir komu að undirbúningsferlinu hafi náð lykilstöðu í samtökunum, að minnsta kosti til að byrja með. Eigendahópurinn breyttist einnig sáralítið upp frá því nema á þann hátt að þegar fækka fór í hópi forkólfanna þá færðist eignarhluturinn yfir til ekkna og annarra aðstandenda. Í ritgerðinni er sjónum beint að einkaréttinum á varnarliðsvinnunni og hvað hann fól í sér og kannað er hvenær hann lá hjá samtökunum og hvenær hjá eigendunum sjálfum. Slíkum rétti fylgdu mikil verðmæti. Fyrstu þrjú árin voru Sameinaðir verktakar undirverktaki bandaríska aðalverktakans Hamiliton-félagsins þar til Íslenskir aðalverktakar tóku við hlutverki hans. Þá tryggðu Sameinaðir verktakar sér einkarétt á allri undirverktöku frá Íslenskum aðalverktökum auk þess að verða helmingseigandi að aðalverktökunni. Árið 1957 færðist einkarétturinn af undirverktökunni frá Sameinuðum verktökum yfir til eigendanna sjálfra. Stofnuðu þeir verktakafyrirtæki til að sinna undirverktöku fyrir Íslenska aðalverktaka sem lengst af var Dverghamar sf.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
MA fyrir Skemmu_aþg.pdf | 1.27 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
yfirlýsing til Skemmu aþg.pdf | 299.96 kB | Lokaður | Yfirlýsing |