Please use this identifier to cite or link to this item: https://hdl.handle.net/1946/34996
Verkefni þetta er 10 ECTS-eininga lokaverkefni til BA-gráðu í uppeldis- og menntunarfræði sem samanstendur af greinargerð og fræðsluefni um tengslavanda barna. Tengslavandi myndast þegar foreldrar bregðast þörfum barna sinna svo sem vegna neysluvanda, andlegra og líkamlegra veikinda, skort á hæfni, vanrækslu eða ofbeldis. Verður umfjöllunin hér afmörkuð við tengslavanda barna sem hafa búið við misbrest í uppeldi (e. adverse caregiving enviroments) sem felur í sér óviðunandi uppeldisskilyrði í formi vanrækslu og ofbeldis. Tengslavandi getur verið misjafn á milli barna og birtingarmynd hans flókin eftir aðstæðum. Hann hefur mikil áhrif á taugaþroska barna sem getur haft alvarlegar afleiðingar á velferð þeirra út lífið.
Í greinargerðinni má finna fræðilega umfjöllun um tengslavanda og tengslamynstur í samhengi við taugaþroska barna. Stuðst verður við þverfaglegar rannsóknir og ritrýndar fræðigreinar meðal annars á sviði taugavísinda og þroskasálfræði ásamt útgefnu efni íslenskra og erlendra fræðimanna. Hlutverk greinargerðarinnar er að styðja og færa rök fyrir því efni sem fram kemur í fræðsluefninu. Markmið fræðsluefnisins er að vekja athygli og auka skilning á myndun tengslavanda, birtingarmynd hans í hegðun barna og þeim þörfum sem liggja þar að baki.