is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/3502

Titill: 
 • Óskýr refsiákvæði
Titill: 
 • Vagueness and ambiguity in Icelandic criminal law
Námsstig: 
 • Meistara
Útdráttur: 
 • Í ritgerðinni er ætlunin að fjalla um óskýr refsiákvæði í íslenskri löggjöf og hvernig þau hafa verið meðhöndluð af dómstólum. Verður leitað svara við því hvaða kröfur séu gerðar til skýrleika refsiákvæða og þá hvort að dómstólum sé heimilt að lýsa refsiákvæði ógild vegna þess að þeim kröfum er ekki uppfyllt. Áður en að lagst er í rannsókn á einstökum lagaákvæðum er hins vegar ástæða til að fjalla sérstaklega um þau tvö meginatriði sem að slík rannsókn byggir á. Er það annars vegar í 2. kafla þar sem fjallað er um stjórnskipulega kröfu 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar um skýrleika refsiheimilda. Er í því skyni gerð úttekt á umfjöllun fræðimanna um inntak ákvæðisins í íslenskum rétti auk þess sem það er borið saman sambærilegt ákvæði í 1. mgr. 7. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og stjórnarskrárákvæði í dönskum, norskum og bandarískum rétti. Hins vegar er í 3. kafla fjallað um þær túlkunarheimildir sem dómstólar hafa og hvernig þeim skal beita gagnvart refsiákvæðum. Er bæði tekið til skoðunar hvernig refsiákvæði eru almennt túlkuð með hinum viðurkenndu lögskýringarsjónarmiðum en einnig gerð sérstök skil á hinni svonefndu túlkunarreglur refsiréttar, er kveður á um að allan vafa um túlkun refsiákvæðis skuli skýra sakborningi í hag. Tel ég nauðsynlegt að gera þessum tveimur atriðum skýr skil áður en hafist er handa við að skoða einstaka flokka refsiákvæða sem valdið geta vafa um skýrleika.
  Annar af meginköflum ritgerðarinnar er 4. kaflinn þar sem gerð er tilraun til að flokka refsiákvæði eftir eiginleikum þeirra og formi. Er í fyrsta lagi tekin til umfjöllunar svonefnd matskennd svigrúmsákvæði innan almennu hegningarlaganna, þ.e. ákvæði er byggja verknaðarlýsingar sínar á opnum og teygjanlegum hugtökum er vísa um efnisinnihald til ákveðins siðferðilegs mælikvarða. Er sem dæmi fjallað bæði um klámhugtak 210. gr. hgl. sem og ákvæði 125. gr. um guðlast. Því næst er gerð grein fyrir eyðuákvæðum, en í hvað víðasta skilningi er þar átt við stærsta hlutann af sérrefsilöggjöfinni er hefur þann háttinn á að verknaðarlýsing brota fer fram í hátternisreglum einstakra laga á meðan refsiheimildina gefur hins vegar að finna í sérstöku refsiákvæði í sömu, eða eftir atvikum öðrum lögum. Er athyglinni annars vegar beint að því þegar refsiábyrgð grundvallast á almennum ákvæðum er kveða á um tilteknar varúðarskyldur. Af dómaframkvæmd er ljóst að séu þær of almennar eða óljósar, geta þær verið taldar óviðhlítandi sem refsiheimildir sökum skorts á skýrleika. Hins vegar er fjallað um það flókna samspil hátternis- og refsireglna sem gefur að finna í bæði hlutafélaga- og samkeppnislöggjöf og hliðsjón höfð af dómaframkvæmd. Þá er einnig tekið til athugunar þau vandkvæði tengd skýrleika þegar að löggjafinn framselur framkvæmdarvaldinu heimild til að setja refsiákvæði (afleidda refsiheimildir) auk álitaefna er lúta að viðurlagaákvæðum og refsiákvæðum sem mæla fyrir um afbrigðilega refsiábyrgð.
  Segja má að þau þrjú sjónarmið sem krafan um skýrar refsiheimildir byggir á liggi sem þráður í gegnum alla ritgerðina og er þeim efnislega gerð ítarleg skil í 5. kafla. Í fyrsta lagi er um að ræða hið svonefnd viðvörunarsjónarmið, er byggir á því að borgararnir eigi að geta vitað hvers konar háttsemi er álitin refsiverð í samfélaginu með því að lesa og kynna sér einstakar refsiheimildir. Er gerð grein fyrir inntaki sjónarmiðsins og þeirri gagnrýni sem það hefur fengið á sig í fræðiskrifum. Þá er sjónarmiðið skoðað sérstaklega út frá eðli brota, þ.e. eftir því hvort um sé að ræða kjarnabrot eða brot innan sérgreindra sviða auk þess hvort að nauðsyn þess að lög nái tilgangi sínum geti haft áhrif á gildi þess. Í annan stað er refsivörslusjónarmiðið, er lýtur að því hvernig að refsireglurnar horfa við valdhöfum og hættunni á því að óskýr refsiákvæði geta leitt handahófskenndra ákvarðana innan refsivörslunnar. Í þriðja lagi er það svo sjónarmiðið um þrískiptingu ríkisvaldsins sem að líta ber til, en það byggir mikilvægi sitt á því að það sé hinn lýðræðislegi armur ríkisvaldsins – löggjafinn – sem að ber að kveða á um refsiábyrgð. Varar það við hættunni á því að það vald sé framselt að of miklu leyti til dómstóla þegar að löggjafinn setur óskýr refsiákvæði. Loks er svo fjallað um það hvaða áhrif það hefur á mat á skýrleika refsiákvæða þegar þau takmarka stjórnarskrárbundin mannréttindi og er 73. gr. stjórnarskrárinnar skoðuð sérstaklega með hliðsjón af dómaframkvæmd.
  Komist er að sjálfstæðum niðurstöðum í hverjum kafla ritgerðarinnar fyrir sig en í stuttu máli má draga heildarniðurstöður rannsóknarinnar á óskýrum refsiákvæðum þannig saman að þegar um hreinan óskýrleika er að ræða, hafa dómstólar á grundvelli 1. mgr. 69. gr. stjskr. heimild til að lýsa refsiákvæði ógilt þar sem það uppfyllir ekki skýrleikakröfur. Með því er átt við þau tilvik þegar að tilraun til að beita ákvæðinu með hinum hefðbundnu túlkunarheimildum leiðir til þess að hvorki það atvik sem er til umfjöllunar né nokkurt annað virðist geta fallið undir refisákvæðið. Erfiðara er hins vegar að greina ákveðna aðferð sem dómstólar beita þegar deilt er um refsiákvæði sem valda aðeins afleiddum óskýrleika, þ.e. þegar túlkun ákvæðis leiðir til þess að fleiri en ein niðurstaða komi til greina. Af dómarframkvæmd virðist hins vegar sem að Hæstiréttur sé líklegri til að beita túlkunarreglu refsiréttar fullum fetum þegar að deilt er um túlkun ákvæðis sem gefur að finna á sérgreindum sviðum sérrefsilöggjafarinnar á þann veg að sjónarmið af lagatæknilegum meiði eru látin ganga framar viðurkenndum lögskýringarsjónarmiðun eins og tilgangi og markmiðum laga.

Samþykkt: 
 • 4.9.2009
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/3502


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Olafsson_fixed.pdf1.34 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna