Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/35093
Matarvenjur og matarhegðun barna hafa verið viðfangsefni fræðimanna í tugi ára. Hins vegar er erfitt að vita hvað það er nákvæmlega sem hefur áhrif á að börn hafa mismunandi skoðanir, viðhorf, venjur og hegðun gagnvart mat. Eitt er þó vitað að foreldrar gegna lykilhlutverki þegar kemur að matmálstíma barna sinna. Út frá fyrri rannsóknum mátti gera ráð fyrir að foreldrar sem glíma við kvíða, þunglyndi eða átröskun noti aðrar aðferðir í tengslum við matmálstíma en þeir foreldrar sem eru við góða andlega heilsu. Því hefur verið haldið fram að foreldrar sem glíma sjálfir við vandamál tengdum mat séu líklegri til að reyna að stjórna börnum sínum við matmálstímann og ýmist þrýsta á, verðlauna, refsa eða takmarka mat við þau heldur en foreldrar sem eru í góðu jafnvægi. Einnig benda niðurstöður úr fyrri rannsóknum til þess að foreldrar sem glíma við kvíða eða þunglyndi séu ýmist líklegri til að láta börn sín afskiptalaus við matmálstímann eða vera með of mikið eftirlit.
Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvort kvíði, þunglyndi eða átröskun foreldra hefðu áhrif á aðferðir sem foreldrar temja sér við matmálstíma barna sinna. Við hönnun mælitækisins var stuðst við þrjá kvarða úr fyrri rannsóknum. Notast var við rafrænt hentugleikaúrtak og fengust svör frá 600 foreldrum af báðum kynjum sem eiga börn á aldrinum 2 til 12 ára. Rannsóknin sem notuð var til fyrirmyndar er frá árunum 2019-2020 um áhrif andlegrar heilsu mæðra í Bretlandi og aðferðir sem þær nota við matmálstíma barna sinna. Til að sannreyna réttmæti og áreiðanleika niðurstaðna er nauðsynlegt að endurtaka rannsóknir og var það gert hér eftir bestu getu.
Mældar voru fimm aðferðir sem foreldrar nota við matmálstíma barna sinna en þær eru heilsusamleg matarleiðsögn, eftirlit, þrýstingur foreldra, takmarkanir og barnið stjórnar. Andlegu kvillarnir eru kvíði, þunglyndi og þrír þættir sem falla undir áhættuþætti átraskana en þeir eru megrunarþráhyggja, lotugræðgi og óánægja með eigin líkama. Aðferðirnar sem foreldrar nota voru skoðaðir út frá andlegu kvillunum til þess að sjá hvort einhver tengsl væru til staðar. Niðurstöðurnar sýndu hins vegar að kvíði, þunglyndi og átröskun foreldra hafa lítil sem engin tengsl við þær aðferðir sem þeir nota við matmálstíma barna sinna og því ekki hægt að gera ráð fyrir að andleg heilsa foreldra hafi áhrif á þær aðferðir sem foreldrar beita í tengslum við matmálstíma barna.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Andleg heilsa foreldra og aðferðir þeirra við matmálstíma barna.pdf | 1.64 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Yfirlýsing.jpeg | 1.56 MB | Lokaður | Yfirlýsing | JPG |