Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/35149
Ein helstu verðmæti þess sem sinnir atvinnurekstri geta falist í þeim mannauði sem viðkomandi atvinnurekandi býr yfir. Atvinnurekstur getur til dæmis krafist þjálfaðs starfsfólks til að sinna sérhæfðum verkefnum. Hverfi slíkt starfsfólk á braut getur það verið afar kostnaðarsamt að fá nýtt starfsfólk þess í stað og standa straum af þjálfun þeirra og sérhæfingu. Jafnframt geta aðstæður á samkeppnismarkaði leitt til þess að rekstraraðilar vilji ekki að starfsfólk geti auðveldlega hætt störfum hjá þeim og hafið störf hjá keppinaut á sama markaði. Þessi þörf getur haft í för með sér að settir eru skilmálar í ráðningarsamning þar sem starfsmanni er óheimilt að sinna störfum fyrir keppinaut í tiltekinn tíma að ráðningarsambandinu loknu.
Slíkir skilmálar vekja iðulega upp spurningar um hversu langt megi ganga í þessum efnum, m.a. með tilliti til grundvallarreglu íslenskrar stjórnskipun um atvinnufrelsi, sbr. 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1994 (hér eftir stjskr.), sbr. 13. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995. Í ákvæði 75. gr stjskr. felst að öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa en því frelsi má þó setja skorður með lögum ef almannahagsmunir krefjast þess. Á síðari árum hefur færst í vöxt að atvinnurekendur setji svokölluð samkeppnisákvæði í ráðningarsamninga, ákvæði sem kveða á um að starfsmanni sé óheimilt í tiltekinn tíma eftir að ráðningu lýkur að hefja störf hjá sambærulegu fyrirtæki eða hefja rekstur slíks fyrirtækis. Í 37. gr laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936 (hér eftir sml.) má finna reglu sem heimilar að ákveðnum skilyrðum uppfylltum að skerða atvinnufrelsi starfsmanns. Sú skerðing má þó hvorki vera víðtækari en nauðsynleg er til að varna samkeppni né skerða með ósannngjörnum hætti atvinnufrelsið.
Viðfangsefni þessarar ritgerðar er túlkun samkeppnisákvæða í ráðningarsamningum. Leitast verður við að varpa ljósi á hvernig samkeppnisákvæði í ráðningarsamningum hafa verið túlkuð í framkvæmd og hvaða sjónarmið hafa verið lögð til grundvallar í því sambandi. Í því skyni verður í 2. kafla fyrst vikið almennt að túlkun löggerninga og þeim meginsjónarmiðum sem lögð hafa verið þar til grundvallar. Sjónum verður síðan beint að túlkun ráðningarsamninga. Út frá því verða tvær meginreglur samningaréttar skoðaðar, annars vegar meginreglan um samningsfrelsi og hins vegar meginreglan um skuldbindingargildi samninga. Í 3. kafla verður fjallað um trúnaðarskyldur aðila í ráðningarsambandi, þar á meðal samkeppnisákvæði í ráðningarsamningum. Í 4. kafla verður svo fjallað um túlkun samkeppnisákvæða í ráðningarsamningum og ályktanir dregnar af fyrirliggjandi framkvæmd um þau sjónarmið sem dómstólar hafa lagt til grundvallar að því leyti. Að lokum verður í 5. kafla helstu niðurstöður dregnar saman.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Túlkun samkeppnisákvæða í ráðningarsamningum-PDF.pdf | 361.73 kB | Lokaður til...27.04.2025 | Heildartexti | ||
Yfirlysing-signed.pdf | 197.76 kB | Lokaður | Yfirlýsing |