is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/3516

Titill: 
  • Framleiðendaábyrgð á raf- og rafeindabúnaðarúrgangi
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Tilskipun nr. 2002/96/EB um raf- og rafeindabúnaðarúrgang var innleidd í íslenskan rétt með lögum nr. 73/2008 sem breyttu lögum nr. 55/2003 um úrgang og með reglugerð nr. 1104/2008 um raf- og rafeindatækjaúrgang. Með því er komið á í íslenskum rétti fyrirkomulagi sem byggir á meginreglunni um framleiðendaábyrgð á sviði raf- og rafeindabúnaðarúrgangs. Í framleiðendaábyrgð felst að framleiðandi vöru er gerður ábyrgur fyrir leifum vörunnar þegar hún er orðin að úrgangi, þ.e. almennt þegar notkun hennar lýkur. Með því er er séð til þess að úrgangurinn sem varð til úr vörunni sé meðhöndlaður og að það sé á kostnað framleiðanda en ekki hins opinbera. Framleiðandi á þess þá kost að laga starfsemi sína og vöruhönnun að þessum nýja starfsvettvangi sínum. Þannig er greiðsluregla umhverfisréttarins gerð raunhæf.
    Framleiðendaábyrgð er meðal réttarúrræða sem beita má til að gera löggjafarstefnuna lífsferilshugsun raunhæfa. Í lífsferilshugsun felst að öllum sem koma að lífsferli vöru, hráefnisvinnsluaðilum, framleiðendum, dreifingaraðilum, notendum og þeim sem meðhöndla úrgang ber að hafa í huga á hverju stigi í lífsferli vörunnar umhverfisáhrif sem leiðir af aðgerðum þeirra og koma fram á öðrum stigum lífsferilsins. Lífsferilsstefna er þáttur í stefnumörkun Evrópubandalagsins í 6. umhverfisáætluninni.
    Frá og með fyrstu umhverfisáætlun Evrópubandalagsins árið 1973 hafa stefnuyfirlýsingar verið gefnar út sem bera vott um lífsferilshugsun. Jafnframt var snemma komin fram sú stefna að draga þyrfti úr myndun úrgangs með öllum tiltækum ráðum, þar á meðal með endurvinnslu og endurnýtingu. Árangur af þessari stefnumörkun var lengst af mjög takmarkaður og magn úrgangs hefur vaxið hratt ár frá ári.
    Með tilskipun nr. 2002/96/EB er komið á þeirri skipan að framleiðendur og innflytjendur raf- og rafeindabúnaðar í hverju aðildarríki EB og EES eru gerðir sameiginlega ábyrgir fyrir framkvæmd söfnunar raf- og rafeindabúnaðarúrgangs. Auk þess eru þeir gerðir fjárhagslega ábyrgir fyrir söfnun raf- og rafeindabúnaðarúrgangs sem er upprunninn á heimilum eða er sama eðlis frá öðrum notendum. Framleiðendur og innflytjendur bera einnig ábyrgð á framkvæmd söfnunar raf- og rafeindabúnaðarúrgangs sem er ekki þess eðlis að geta verið frá heimilum en þar bera þeir ekki fjárhagslega ábyrgð. Á Íslandi fara sveitarfélög með framkvæmd söfnunar raf- og rafeindabúnaðarúrgangs en samtök framleiðenda og innflytjenda, svokölluð skilakerfi, greiða samkvæmt gjaldskrá fyrir afnot af gámastæðum á söfnunarstöðvum vegna úrgangs frá heimilum.
    Framleiðendur og innflytjendur eru auk þess gerðir ábyrgir fyrir framkvæmd og fjármögnun meðhöndlunar úrgangsins, sér í lagi endurnotkunar og endurvinnslu. Í því skyni að hægt sé að koma á skipan sem byggir á því að hver framleiðandi eða innflytjandi beri einstaklingsbundna ábyrgð á úrgangi af vöru frá honum sjálfum hafa verið settar reglur sem skylda framleiðendur og innflytjendur til að merkja sér raf- og rafeindabúnað sem er settur á markað eftir 13. ágúst 2005. Á Íslandi hefur þessi regla ekki verið sett heldur er gert ráð fyrir að ábyrgðin sé og verði sameiginleg eftir flokkum úrgangsins.
    Meginefni ritgerðarinnar er greining á tilskipuninni lið fyrir lið og samanburður við íslenskar réttarreglur sem voru settar henni til innleiðingar. Við greininguna koma fram tæknilegir hnökrar í innleiðingu tilskipunarinnar auk misræmis á stöku stað, aðallega með því móti að ákvæði vantar. Í nokkrum tilvikum er í innleiðingunni gengið lengra í átt að framleiðendaábyrgð en í tilskipuninni.

Samþykkt: 
  • 7.9.2009
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/3516


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
oktober_fixed.pdf27,66 kBOpinnForsíðaPDFSkoða/Opna
ritgerd_fixed.pdf550,77 kBOpinnEfnisyfirlit, meginmál og heimildaskráPDFSkoða/Opna
2k_fixed.pdf72,74 kBOpinnTafla með 2. kaflaPDFSkoða/Opna
utdrattur_fixed.pdf56,33 kBOpinnÚtdrátturPDFSkoða/Opna